Lífið

Það á enginn einkaleyfi á nafninu Ísfólkið

Deilan um Ísfólkið er í hnút. Ragnhildur Steinunn segist hafa gengið úr skugga um að enginn eigi einkaleyfið á Ísfólksnafninu og Ari Matthíasson segir að móðir sín, Ingibjörg Jónsdóttir, hafi gefið þessum bókaflokki fyrst nafn.
Deilan um Ísfólkið er í hnút. Ragnhildur Steinunn segist hafa gengið úr skugga um að enginn eigi einkaleyfið á Ísfólksnafninu og Ari Matthíasson segir að móðir sín, Ingibjörg Jónsdóttir, hafi gefið þessum bókaflokki fyrst nafn.
„Ég athugaði með einkaleyfið hjá Einkaleyfisstofu og það á enginn einkaleyfið á þessu nafni. Ég var búin að ganga úr skugga um það," segir sjónvarpskonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir.

Fréttablaðið greindi frá því á laugardag að Margit Sandemo, höfundur bókanna um Ísfólkið, væri ósátt við nafnið á nýjum sjónvarpsþætti Ragnhildar, Ísfólkið með Ragnhildi Steinunni. Sigrún Halldórsdóttir, útgefandi bókarinnar, sagði að nafnið væri höfundarverk Sandemo og RÚV hefði því ekkert leyfi til að nýta sér þetta heiti. Hefur hún óskað eftir því að þátturinn fái annað nafn.

Ingibjörg Jónsdóttir þýddi upprunalegu bækurnar fyrir Prenthúsið á sínum tíma en þær hafa verið endurútgefnar í þýðingu Snjólaugar Bragadóttur. Ari Matthíasson, framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins og sonur Ingibjargar, kvaðst í samtali við Fréttablaðið hafa miklar efasemdir um að Sandemo gæti gert tilkall til titilsins Ísfólkið. Það hefði verið móðir hans sem hefði gefið þessum bókaflokki nafn á íslensku.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um að þáttur Ragnhildar fái nýtt nafn. Þegar Fréttablaðið náði tali af henni var hún stödd í ísbúðinni Ísfólkið í Spönginni. „Það er auðvitað innihald þáttanna sem skiptir máli og ef við þurfum að breyta nafninu út frá lögfræðilegum eða siðfræðilegum sjónarmiðum gerum við það að sjálfsögðu. Mér finnst það samt svolítið skrýtið að Íslendingar megi ekki nota orð með forskeytinu ís."- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.