Erlent

Aðstoða uppreisnarmenn

Fundað Nicolas Sarkozy heilsar leiðtogum uppreisnarmanna, Mustafa Abdel Jalil og Mahmoud Jibril, við upphaf fundarins í París í gær.nordicphotos/AFP
Fundað Nicolas Sarkozy heilsar leiðtogum uppreisnarmanna, Mustafa Abdel Jalil og Mahmoud Jibril, við upphaf fundarins í París í gær.nordicphotos/AFP
Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) munu taka forystu í málefnum Líbíu og munu aðstoða uppreisnarmenn í landinu eftir föngum. Þetta kom fram í máli Bans Ki-moon, framkvæmdastjóra SÞ, á alþjóðlegri ráðstefnu í París, þar sem leiðtogar sextíu ríkja hittust til að ræða framtíð Líbíu.

Ban hvatti öryggisráð SÞ til að ákveða sem fyrst að senda borgaralega sérfræðinga til Líbíu til að hjálpa til við að koma á stöðugleika í landinu.

Meðal þátttakenda á ráðstefnunni voru Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og leiðtogar Sameinuðu þjóðanna, NATO og Arababandalagsins.

Fyrir ráðstefnuna sögðu bæði Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, mikilvægt að Líbíumenn tækju sjálfir forystuna um mótun framtíðar landsins, frekar en að utanaðkomandi ríki skipti sér mikið af því.

Sarkozy sagði jafnframt að frystingu verði aflétt af fjármunum sem líbísk stjórnvöld eiga á erlendum bankareikningum.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði fjárskort til lengri tíma ekki vera vandamál nýrra stjórnvalda í Líbíu. „En ég held að núna þurfi að gera margt mjög hratt hvað varðar tæknilega aðstoð og einnig við að byggja upp lýðræðislegt fyrirkomulag.“

Uppreisnarmenn hafa nú stærstan hluta landsins á valdi sínu, en stuðningsmenn Gaddafís stjórna enn borginni Sirte, sem er fæðingar-bær Gaddafís.

Ekki er vitað hvar Gaddafí sjálfur er niðurkominn, en eftir honum var haft í gær á sjónvarpsstöð í Kúvæt að hann ætlaði alls ekki að gefast upp. „Líbíska þjóðin getur ekki bognað, getur ekki látið undan, við erum ekki konur, við getum ekki gefist upp, við erum ekki þrælar.“

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×