Erlent

Leyfðu gróf mannréttindabrot

Thomas Hammarberg Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins er harðorður í garð evrópskra stjórnvalda.nordicphotos/AFP
Thomas Hammarberg Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins er harðorður í garð evrópskra stjórnvalda.nordicphotos/AFP
Thomas Hammarberg, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, gagnrýnir stjórnvöld margra Evrópuríkja harðlega fyrir aðgerðir þeirra í svonefndri baráttu gegn hryðjuverkum.

Hann segir þau meðal annars hafa aðstoðað Bandaríkin við óteljandi glæpaverk undanfarinn áratug. Næstu daga, þegar þess er minnst að tíu ár eru liðin frá árásunum 11. september, eigi að nota til þess að rannsaka viðbrögðin við þessari árás, hvort þau hafi verið viðeigandi og hvort þau hafi skilað einhverju.

„Í baráttunni gegn glæpum, sem hryðjuverkamenn eru sakaðir um, hafa óteljandi aðrir glæpir verið framdir,“ segir Hammarberg og tekur fram að þessa glæpi hafi verið reynt að fela vandlega.

Hann segir stjórnvöld Evrópuríkja hafa gerst samsek Bandaríkjunum, meðal annars hvað varðar pyntingar og ólöglegt flug með fanga milli leynilegra fangelsa.

„Þau leyfðu, vörðu og tóku þátt í aðgerðum leyniþjónustunnar CIA, sem brutu gegn grundvallarreglum réttarfars okkar og mannréttindaverndar,“ sagði Hammarberg í yfirlýsingu, sem hann sendi frá sér í gær.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×