Innlent

Meintur nauðgari neitaði sök

Lögreglan á Selfossi hefur haft til rannsóknar fjögur nauðgunarmál sem upp komu á Þjóðhátíð.
Lögreglan á Selfossi hefur haft til rannsóknar fjögur nauðgunarmál sem upp komu á Þjóðhátíð. Mynd/óskar P. Friðriksson
Ákæra hefur verið gefin út á hendur manni sem situr í varðhaldi, grunaður um nauðgun á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Ákæran var þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands á fimmtudag og neitaði maðurinn sök.

Maðurinn er talinn hafa ráðist á stúlku við útikamra á Þjóðhátíð og nauðgað henni. Stúlkan flúði því næst í fang gæslumanna en maðurinn stöðvaði ekki við svo búið, heldur elti hana þangað og hafði í frammi kynferðislega tilburði, að því er gæslumennirnir hafa borið.

Stúlkan bar strax kennsl á manninn við sakbendingu. Hann hefur verið margsaga í yfirheyrslum, en framburður hennar hins vegar mjög stöðugur.

Maðurinn hefur áður hlotið dóm fyrir nauðgun. Hann var árið 2006 dæmdur fyrir að nauðga stúlku í trjálundi við tjaldstæði í Hrossabithaga ári fyrr. Niðurstaðan var tveggja ára fangelsi, sem Hæstiréttur mildaði síðan í átján mánuði.

Vegna þessarar forsögu hefur manninum nú verið haldið í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna frá því um verslunarmannahelgi. Varðhaldið var í gær framlengt um einn mánuð, sem er hámarkslengd á þessu stigi málsins, og segir Hulda Elsa Björgvinsdóttir hjá embætti Ríkissaksóknara að þegar það rennur út verði enn óskað eftir framlengingu.

Aðalmeðferð málsins hefst 3. október. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×