Lífið

Gaf afslátt út á Ísland

Zack gaf Ólafi afslátt af tónlistinni fyrir stiklur Borgríkis vegna smæðar Íslands.
„Hann er ótrúlegur snillingur, þessi strákur," segir leikstjórinn Ólafur Jóhannesson.

Kvikmyndin Borgríki eftir Ólaf verður frumsýnd 14. október.

Tónlistarmaðurinn Zack Hemsey semur tónlistina í nýjum stiklum fyrir myndina, en hann samdi einnig tónlistina í stiklum kvikmyndanna Inception, The Town og Robin Hood eftir Ridley Scott. „Hann er búinn að gera heilan helling," segir Ólafur og bætir við að það hafi verið sáraeinfalt að hafa uppi á honum.

„Ég fann náungann á netinu og talaði við hann. Hann vildi fyrst fá ógurlegar formúur fyrir verkið, svo benti ég honum á að ég væri á Íslandi, sem væri eins og lítið Disneyland – mjög lítill markaður. Þá fékk ég þetta frekar ódýrt. Hann gaf afslátt út á Ísland, það er bara málið."

Ólafur er mikill stiklumaður og segist vera búinn að sjá miklu fleiri stiklur en kvikmyndir. Hann segir tónlistina í stiklunni skipta sköpum enda sé hún frímerki fyrir myndina. „Ef fólk ætlar að sjá myndina skoðar það treilerinn og því þarf hann að vera eins flottur og mögulegt er," segir hann.

Ágústa Eva Erlendsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Sigurður Sigurjónsson og hinn serbneski Zlatko Krickic fara með aðalhlutverkin í myndinni. Ólafur fór óhefðbundnar leiðir við fjármögnun myndarinnar og bauðst fólki meðal annars að styrkja myndina með frjálsum framlögum. Nú þegar hann sér fyrir endann á vinnunni við myndina segir hann að það sé hálfgerður gerviléttir.

„Þegar eitt klárast byrjar annað," segir hann. „Ég er hættur að trúa á spennuföll, þau eru yfirleitt haugalygi. Englarnir koma með nýja verkefnaskrá þegar maður klárar eitthvað."

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu myndarinnar, borgriki.is. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.