Lífið

Stefnan verður sett á Eurovision í Baku

Eyrún Ellý (t.h) ásamt vinkonu sinni Hildi Tryggvadóttur, en þær eru meðal stofnenda fyrsta íslenska Eurovision-aðdáendaklúbbsins.
Eyrún Ellý (t.h) ásamt vinkonu sinni Hildi Tryggvadóttur, en þær eru meðal stofnenda fyrsta íslenska Eurovision-aðdáendaklúbbsins. Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta er tiltölulega nýskeð, stofnfundurinn var í ágúst," segir Eyrún Ellý Valsdóttir, íslenskufræðingur og formaður fyrsta íslenska opinbera Eurovision-aðdáendaklúbbsins, FÁSES. Klúbburinn verður hluti af OGAE sem eru stærstu samtök aðdáenda Eurovision í heiminum.

Eyrún Ellý ásamt fimm öðrum stofnuðu klúbbinn til að gera íslenskum Eurovision-aðdáendum kleift að vera í sambandi við aðra Eurovision-aðdáendur, hafa gott aðgengi að miðum á keppnina og geta fylgst með hvað aðrir Eurovision-aðdáendur eru að hugsa og spá. „Og styðja við bakið á RÚV þegar undankeppnin byrjar, að skapa smá stemningu fyrir henni. Það hefur oft verið mjög stór þáttur í starfi erlendu aðdáendaklúbbanna að ná upp stemningu í kringum landskeppnirnar."

Undirbúningur fyrir formlegan kynningarfund stendur nú yfir en Eyrún segist gera ráð fyrir því að hann verði í lok þessa mánaðar á skemmtistaðnum Barböru. Hún bætir því jafnframt við að klúbburinn setji að sjálfsögðu stefnuna á að fara til Bakú í Aserbaídsjan þar sem keppnin verður næst.

Eyrún hefur alltaf haft mikinn áhuga á keppninni og var með Eurovision-blogg ásamt vinkonu sinni, Hildi Tryggvadóttur. Hún fór jafnframt á keppnina í Osló og þar sagðist hún einmitt hafa fyrst orðið þess vör hversu mikilvægt það er fyrir sanna Eurovision-aðdáendur að vera í opinberum klúbbi. „Ef maður er ekki með svona félagsskírteini er maður hálfútilokaður en um leið og þú færð passann opnast þér næstum allar dyr," útskýrir Eyrún.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.