Lífið

Casper og Frank undirbúa Klovn 2

Casper og Frank Hvam ætla að gera Klovn 2 á næsta ári. Þeir ganga jafnframt með hugmynd að annarri mynd í maganum.
Casper og Frank Hvam ætla að gera Klovn 2 á næsta ári. Þeir ganga jafnframt með hugmynd að annarri mynd í maganum. Fréttablaðið/Valli
Dönsku háðfuglarnir Casper Christensen og Frank Hvam eru að undirbúa sig fyrir nýja uppistandssýningu sem verður frumsýnd í byrjun október. Og þeir eru reiðubúnir að skella sér aftur í trúðsgallann.

Klovn 2 verður að veruleika samkvæmt viðtali Jyllands-Posten við grínistann Casper Christensen. „Við höfum ákveðið að gera eina mynd í viðbót en ég get ekki tjáð mig um hvað myndin fjallar um, við höfum bara tekið þessa ákvörðun,“ hefur blaðið eftir Casper. Frank Hvam lét hafa eftir sér í samtali við Fréttablaðið þegar trúðarnir heimsóttu Ísland að það væri allsendis óvíst að Klovn 2 yrði gerð. „En ef við fáum góða hugmynd og höfum áhuga þá gerum við auðvitað aðra mynd,“ sagði hann þá.

Þessi tíðindi ættu ekki að þurfa koma mörgum í opna skjöldu því tæplega níu hundruð þúsund Danir sáu myndina í bíó, hún gerði góða hluti í Noregi og Íslendingar flykktust í bíó til að sjá trúðana fara á kostum. „Þetta mun gerast á næstu átján mánuðum enda er þetta kvikmynd. Og maður gerir ekki bara kvikmynd upp úr þurru, slíkt tekur sinn tíma. En við viljum gera meira af Klovn og það ætlum við að gera,“ segir Casper og bætir því við að þeir gangi jafnframt með hugmynd að annarri mynd í maganum sem tengist Klovn-tvíeykinu ekkert. „Við vitum ekki alveg hvor þeirra verður á undan.“

Casper og Frank eru að skríða út úr skelinni eftir ævintýrið í kringum Klovn-kvikmyndina, þeir eru nú að undirbúa uppistandssýningu sem fer á fjalirnar í október og heitir Casper og Frank. Nu som mennesker eða Casper og Frank. Í eigin persónu.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.