Innlent

Unglingur bætist í hóp ákærðu

Ríkharð Júlíus Ríkharðsson og Davíð Freyr Rúnarsson eru ekki lengur einu sakborningarnir í málinu.
Ríkharð Júlíus Ríkharðsson og Davíð Freyr Rúnarsson eru ekki lengur einu sakborningarnir í málinu.
Réttarhöldin í handrukkunarmálinu gegn tveimur liðsmönnum vélhjólagengisins Black Pistons tóku óvænta stefnu í gær þegar halda átti áfram aðalmeðferð þess í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í ljós kom að fórnarlambið hafði bendlað þriðja manninn við hrottafengna árás á sig og hefur ákæra verið gefið út á hendur honum vegna málsins.

Þriðji maðurinn er rétt tæplega sautján ára, og var áður á lista yfir vitni í málinu. Vitað var að hann hefði verið viðstaddur árásina á heimili eins hinna ákærðu, Ríkharðs Júlíusar Ríkharðssonar, forsprakka Black Pistons.

Í vikunni tók lögregla enn eina skýrsluna af fórnarlambinu, og bar það þá til tíðinda í framburði þess að árásarmönnunum hafði fjölgað úr tveimur í þrjá; sá ungi sem áður hafði bara fylgst með árásinni var skyndilega orðinn þátttakandi.

Hann var í kjölfarið handtekinn og yfirheyrður og hefur, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, gengist við að hafa tekið einhvern þátt í árásinni. Ekki hefur náðst í piltinn til að birta honum ákæruna.

Fyrirhugað er að aðalmeðferðin haldi áfram að viðbættum hinum nýja sakborningi 12. október. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×