Skoðun

Orð og hugtak

Hannes Pétursson skrifar
Í grein sem ég birti í Fréttablaðinu 20. ágúst síðastliðinn lét ég þess getið að til Goethes mætti rekja hugtakið heimsbókmenntir, „Weltliteratur“. Gauti Kristmannsson dósent er ekki á því máli. Hér í blaðinu (1. september) benti hann á stað í þýzkri bók frá árinu 1773 þar sem þetta orð kemur fyrir, þ.e. um hálfum sjötta áratug fyrr en Goethe tók sér það í munn í frægum samræðum sínum við Eckermann.

Hér fer Gauti Kristmannsson of hratt í sakir. Það stóð hvergi í grein minni að Goethe hefði fyrstur þýzkra manna gripið til sjálfs orðsins „Weltliteratur“ og veit ég ekki hvort nokkur hefur ýjað að slíku, þó kann svo að vera (og mætti gúgla þetta!). Ég nefndi eingöngu að Goethe hefði búið til hugtak úr orðinu „Weltliteratur“. Það hugtak hefur síðan lifað í umræðum manna um það hvernig skilja beri orðið heimsbókmenntir. Eru heimsbókmenntir samanlagðar bókmenntir allra þjóða á öllum tímum, merkar og miður merkar, eða eru þær eitthvað annað og þá hvað? Í þýzku bókarklausunni frá 1773 kemur ekki nógu glöggt í ljós hvað átt er við með „Weltliteratur“.

Ég bið Gauta Kristmannsson vinsamlegast að lesa aftur og betur en hann virðist hafa gert þau ummæli sem Eckermann hefur eftir Goethe úr samræðum þeirra í Weimar 31. janúar 1827. Hann hlýtur þá að sjá að Goethe býr til nýtt hugtak úr orðinu „Weltliteratur“.

Í örstuttu máli: Samkvæmt því sem Eckermann skrásetur lagði Goethe á efri árum þann skilning í orðið heimsbókmenntir að þær væru bókmenntir á nýju og víðara menningarsviði en fyrir var hjá hverri þjóð um sig, en í sögulegum tengslum við þjóðarbókmenntir („Nationalliteratur“, orð sem Goethe notar í skilgreiningu sinni). Sannra fyrirmynda sé þó ávallt að leita hjá Grikkjum að fornu, segir hann. Sú viðmiðun hefur sumum þótt allþröng og vísa meðal annars til þess að Goethe dáði Shakespeare, hafði hann í engu minni hávegum en forngrísku stórskáldin.

Tímarnir sverfa til ýmis hugtök. Þannig munu heimsbókmenntir tákna nú á dögum framar öðru þann hluta heildarbókmenntanna sem gæddur er menningarlegu áhrifagildi í heiminum frá kyni til kyns. En þetta breytir engu um hitt, að Goethe bjó fyrstur til bókmenntafræðilega skilgreiningu á orðinu heimsbókmenntir, hugtak sem var annars konar en bláber orðsins hljóðan.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×