Lífið

Myndaði fyrir Lexus-herferð

"Oft eru það nú frekar litlu hlutirnir en þeir stóru sem hrinda af öllu af stað,“ svarar Marinó pollrólegur, spurður hvort hann telji að Lexus-herferðin eigi eftir að opna nýjar dyr.
"Oft eru það nú frekar litlu hlutirnir en þeir stóru sem hrinda af öllu af stað,“ svarar Marinó pollrólegur, spurður hvort hann telji að Lexus-herferðin eigi eftir að opna nýjar dyr. Fréttablaðið/Valli
Marinó Thorlacius hefur síðustu ár verið að skapa sér nafn sem ljósmyndari á alþjóðavettvangi. Nýjasta skrautfjöðrin í hattinn er viðamikið verkefni sem Marinó vann fyrir japanska bílaframleiðandann Lexus þar sem Reykjavík og íslensk náttúra eru í lykilhlutverki.

„Þeir höfðu samband við mig með stuttum fyrirvara og að því er virtist upp úr þurru til að kanna hvort ég gæti tekið myndatökuna að mér. Ég sló bara til," segir Marinó. Hann vísar þar í markaðsrisann Story WorldWide sem réði hann í verkefnið, en fyrirtækið er með starfsemi í þremur heimsálfum og fjölda þekktra vörumerkja á sínum snærum, svo sem Karen Millen, Starbucks, Clinique og Lexus.

Í herferðinni sem Marinó var fenginn til að mynda er nýjasta gerð tvinnjeppa frá Lexus, Full Hybrid RX 450h, kynnt til sögunnar í kunnuglegu umhverfi höfuðborgarinnar og nágrennis. Hann vill ekki geta til um hvert umfang hennar kemur til með að verða. Þó liggi ljóst fyrir að hún verði meðal annars notuð í tímariti sem Lexus og Story WorldWide gefa út í sameiningu og dreifa á Evrópumarkað. „Þannig að viðbúið er að auglýsingin eigi eftir að vekja einhverja athygli."

Segja má að Lexus-herferðin marki nýtt skref fyrir Marinó sem hefur hingað til aðallega fengist við tísku- og landslagsljósmyndun. Nýverið vakti hann verulega athygli fyrir ljósmyndir sínar af herralínu hönnuðarins Sruli Recht sem sýndar voru við góðar undirtektir í París fyrr á árinu. Hann telur hugsanlegt að þær hafi orðið til þess að Story WorldWide sló á þráðinn.

Heldurðu að herferðin eigi eftir að opna þér nýjar dyr? „Oft eru það nú frekar litlu hlutirnir en þeir stóru sem hrinda öllu af stað," segir Marinó og viðurkennir að ýmis spennandi verkefni séu í gangi en ótímabært að ræða þau að sinni.

roald@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.