Erlent

Róttæki flokkurinn útilokar hægristjórn

Helle Thorning Schmidt, leiðtogi Sósíalistaflokksins, er áberandi á kosningaspjöldum í Kaupmannahöfn.nordicphotos/AFP
Helle Thorning Schmidt, leiðtogi Sósíalistaflokksins, er áberandi á kosningaspjöldum í Kaupmannahöfn.nordicphotos/AFP
Danir ganga til þingkosninga í dag. Vinstriflokkunum fjórum er spáð þingmeirihluta, sem þýðir að minnihlutastjórn hægriflokkanna getur varla gert sér vonir um framhaldslíf.

Miklar vangaveltur voru í dönskum fjölmiðlum í gær um að Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, sem er leiðtogi hægriflokksins Venstre, vildi fá Róttæka flokkinn til liðs við stjórn Venstre og Íhaldsflokksins.

Tilefni þessara vangaveltna voru ummæli Rasmussens um að hann vildi gjarnan halda áfram samstarfi stjórnarinnar við Róttæka flokkinn, sem er frjálslyndur miðjuflokkur sem stundum hefur tekið þátt í hægri stjórnum en hefur undanfarið skipað sér ákveðið í lið með stjórnarandstöðu vinstriflokkanna.

Sjálfur sló Rasmussen þessar vangaveltur út af borðinu í gær og sagðist eingöngu stefna á áframhaldandi stjórnarsamstarf með Íhaldsflokknum, án þess þó að nefna hvort hann kærði sig um að styðjast áfram við stuðning Danska þjóðarflokksins, sem er flokkur þjóðernissinna.

Morten Østergaard, næstráðandi í Róttæka flokknum, tók síðan af skarið og sagði alls ekki koma til greina að flokkurinn færi í stjórnarsamstarf með Venstre og Íhaldsflokknum, enda væri ekki annað sjáanlegt en að sú stjórn yrði minnihlutastjórn sem þyrfti þá áfram að reiða sig á stuðning Danska þjóðarflokksins.

Helle Thorning-Schmidt, leiðtogi Sósíaldemókrata, sagðist enga trú hafa á því að Róttæki flokkurinn gæti hugsað sér stjórnarsamstarf með Løkke.

„Allir fjórir stjórnarandstöðuflokkarnir eru jú önnum kafnir við að tryggja að Danski þjóðarflokkurinn hafi ekki svona mikil áhrif,“ sagði Thorning-Schmidt, sem að öllum líkindum mun taka við forsætisráðherraembættinu af Løkke verði kosningaúrslitin í samræmi við skoðanakannanir.

Pia Kjærsgaard, leiðtogi Danska þjóðarflokksins, hefur óspart notað áhrif sín á þingi undanfarinn áratug til þess að tryggja harða stefnu minnihlutastjórnarinnar gegn útlendingum, innflytjendum og flóttamönnum.

Samkvæmt öllum skoðanakönnunum síðustu vikurnar eiga vinstriflokkarnir fjórir vísan þingmeirihluta, þótt ekki verði hann mikill. Þeim er spáð að meðaltali 92 þingsætum en hægriflokkunum 83.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×