Skoðun

Staðgöngumæðrun samþykkt af meirihluta heilbrigðisnefndar Alþingis

Heilbrigðisnefnd Alþingis hefur samþykkt þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni með breytingum og lagt fram nefndarálit þar að lútandi. Félagið Staðganga fagnar niðurstöðu heilbrigðisnefndar en hún byggir á öflun gagna og viðtala við hina ýmsu sérfræðinga, þar á meðal Karen Busby, lagaprófessor við Manitoba-háskóla í Kanada, en hún er einn helsti sérfræðingurinn á sviði staðgöngumæðrunar á Vesturlöndum í heiminum í dag.

Rannsókn prófessors Karen Busby tekur yfir allar birtar rannsóknir sem gerðar hafa verið á staðgöngumæðrun á Vesturlöndum sem voru 40 talsins á þeim tíma. Niðurstöður þeirra eru einróma sammála um afar góðan árangur staðgöngumæðrunar. Eins sýna þær að flest ef ekki öll þau álitaefni sem sett hafa verið fram í umræðunni hér á Íslandi eiga ekki við rök að styðjast.

Í ályktun heilbrigðisnefndar segir að lögð skuli áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra. Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit. Faglegt mat, alþjóðlegar rannsóknir og reynsla annarra þjóða verði lögð til grundvallar við vinnu starfshóps, skipuðum af velferðarráðherra, við gerð frumvarps sem ráðherra leggi fram á Alþingi eigi síðar en 1. mars 2012. Flutningsmaður hinnar breyttu tillögu fyrir hönd heilbrigðisnefndar er Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Helstu breytingar sem gerðar hafa verið á tillögunni af hálfu heilbrigðisnefndar eru að bindandi samkomulag hefur verið fellt út og að tímaramminn hefur verið rýmkaður verulega, eða til 1. mars 2012. Staðganga styður heilshugar nefndarálit heilbrigðisnefndar með öllum þeim fyrirvörum sem þar koma fram og vonar að málið verði tekið til umræðu og atkvæðagreiðslu á yfirstandandi þingi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×