Lífið

Hlustar á Iron Maiden til að búa sig undir hlutverk

Þorbjörg Helga leikur aðalhlutverkið í næstu kvikmynd Ragnars Bragasonar, Málmhaus. Myndin fjallar um unga stúlku á afskekktu kúabúi sem dreymir um að verða þungarokksstjarna. Fréttablaðið/Anton
Þorbjörg Helga leikur aðalhlutverkið í næstu kvikmynd Ragnars Bragasonar, Málmhaus. Myndin fjallar um unga stúlku á afskekktu kúabúi sem dreymir um að verða þungarokksstjarna. Fréttablaðið/Anton
„Mér er farið að finnast það alveg rosalega skemmtilegt,“ segir Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir leikkona sem hlustar á sígilt þungarokk til að búa sig undir hlutverk á hvíta tjaldinu.

Þorbjörg útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands 2009 og hefur síðan þá tekið að sér fjölbreytt verkefni í leikhúsinu, lék meðal annars eitt aðalhlutverkanna í sýningunni Rautt brennur á móti þeim Jörundi Ragnarssyni og Dóru Jóhannsdóttur. Íslenskir kvikmyndahúsagestir eiga hins vegar eftir að sjá mikið til Þorbjargar á næstunni; hún leikur sjómannseiginkonuna Höllu í kvikmyndinni Djúpið eftir Baltasar Kormák en hún byggir á einstöku björgunarafreki Guðlaugs Friðþórssonar og svo verður hún í aðalhlutverki í kvikmyndinni Málmhaus, kvikmynd Ragnars Bragasonar sem fer í framleiðslu á næsta ári.

Málmhaus segir frá ungri stúlku á afskekktu kúabúi á því herrans ári 1992 sem á sér þann draum heitastan að verða þungarokkstjarna. Fyrstu árin á tíunda áratug síðustu aldar voru mikil gullöld fyrir sanna þungarokksaðdáendur og því ekkert skrýtið að sagan skuli gerast á því tímabili. Hins vegar má velta því fyrir sér af hverju Ragnar Bragason er svona hrifinn af þessu ári því sjónvarpsþáttaröðin Heimsendir gerist um verslunarmannahelgina það sama ár. En það er önnur saga. „Bróðir minn er mikill þungarokkari en ég var það ekki. Eftir að ég fór hins vegar að hlusta á það og sökkva mér ofan í það fór mér að finnast það skemmtilegt og er núna komin með ansi rokkaðan lagalista á I-podinum,“ útskýrir Þorbjörg og nefnir helst lög með Iron Maiden.

Þorbjörgu líst vel á samstarfið við Ragnar Bragason. Hann vinnur mjög náið með leikurum og leyfir þeim að taka virkan þátt í að móta persónur sínar. „Mér finnst þetta virkilega skemmtilegt umfjöllunarefni og þessi stelpa er sterkur karakter sem verður gaman að kynnast betur.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.