Lífið

Með mann til að sjá um vaxandi viðskiptaumsvif

„Núna getum við gert nákvæmlega það sem við viljum og það gengur mun betur en við bjuggumst við í upphafi." segir Halldór Helgason snjóbrettakappi, sem var staddur í Sviss þegar Fréttablaðið náði í hann.

Halldór og Eiki bróðir hans eru á meðal þekktustu snjóbrettakappa heims um þessar mundir. Undanfarin misseri hafa þeir prófað sig áfram í viðskiptahlið íþróttarinnar og stofnað fyrirtækin Lobster, um hönnun og framleiðslu á snjóbrettum, 7 9 13, um hönnun á beltum ásamt því að koma að fyrirtækinu Hoppípolla, sem framleiðir húfur. Þá er Halldór með samning við Nike-íþróttavörurisann og kemur fram í nýju kynningarmyndbandi á vegum fyrirtækisins, sem var tekið upp í Noregi.

Halldór er ánægður með samstarfið við Nike og segir að þar á bæ taki menn hlutina ekki of alvarlega, þrátt fyrir stærð fyrirtækisins. „Þeir leyfa mér að gera það sem ég vil, þannig að það er algjör snilld," segir hann. „Ég fæ dót frá þeim, geng í því og fæ að vera eins mikið á snjóbretti og ég get."

Halldór og Eiki ferðast um heiminn á veturna og taka upp snjóbrettamyndbönd, ásamt því að taka þátt í keppnum. Þeir eru atvinnumenn í íþróttinni en stofnuðu Lobster fyrr á þessu ári og hafa nú ráðið Svíann Kristoffer Hansson til að sjá um viðskiptahlið íþróttarinnar fyrir sig. „Við viljum báðir hugsa um að vera á snjóbrettum eins mikið og við getum. Svo lærum við á viðskiptin hægt og rólega með," segir hann. „Kristoffer sér um að útvega betri samninga og svona. Það er mjög fínt því ég nenni ekki að hugsa um bisnessinn núna."

Lobster-bretti Halldórs og Eika eru seld í verslunum í nítján löndum víða um heim og í gegnum netverslun fyrirtækisins. Halldór og Eiki hanna brettin sjálfir og hann segir viðskiptin ganga vel. „Snjóbrettabransinn er erfiður. Það er svo mikið í gangi. En Lobster gengur mjög vel, það er algjör snilld," segir Halldór.

Fram undan hjá honum er keppni í Svíþjóð og þaðan heldur hann til Austurríkis að renna sér. Hægt er að fylgjast með ævintýrum og viðskiptum bræðranna á bloggi þeirra: Helgasons.com.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.