Lífið

Íslenskri tísku hampað fyrir frumleika

Fatahönnuðurinn Harpa Einarsdóttir sýndi sína línu fyrir áhugasömum kaupendum. Hún er hér ásamt Dorrit Moussaieff forsetafrú og Ingibjörgu Grétu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Reykjavík Runway.
Fatahönnuðurinn Harpa Einarsdóttir sýndi sína línu fyrir áhugasömum kaupendum. Hún er hér ásamt Dorrit Moussaieff forsetafrú og Ingibjörgu Grétu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Reykjavík Runway.
„Gestir hrósuðu hönnuðum í hástert og voru flestir sammála um að línur íslensku fatahönnuðanna hefðu verið frumlegar og ættu fullt erindi á alþjóðamarkað,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri Reykjavík Runway. Reykjavík Runway stóð fyrir sýningarbás með íslenskum hönnuðum á tískuvikunni í New York um helgina og var aðsóknin í básinn mikil.

Þeir hönnuðir sem sýndu sumarlínur sínar voru Helga Lilja Magnúsdóttir, sem er með merkið Helicopter, Mundi, Eygló Margrét Lárusdóttir, sem hannar undir merkinu EYGLO, og Sólveig og Edda Guðmundsdætur með Shadow Creatures. Einnig var Harpa Einarsdóttir með merkið sitt Ziska, en förin til New York var hluti af verðlaunum hennar sem sigurvegari fatahönnunarkeppninnar Reykjavík Runway.

„Móttökurnar voru framar vonum og við fengum marga góða gesti. Fyrirspurnir um fatnaðinn komu meðal annars frá kaupendum frá Japan, Kína, Kanada og Bandaríkjunum,“ segir Ingibjörg Gréta, en Dorrit Moussaieff forsetafrú fylgdi íslensku hönnuðunum á tískuvikuna, sem þeir kunnu vel að meta.

„Það að hún gaf sér tíma til að koma með til New York og aðstoða íslensku hönnuðina var ómetanlegt, því ekki geta allir státað af slíkum stuðningi,“ segir Ingibjörg Gréta, ánægð með árangurinn á tískuvikunni, en bætir við að þau þurfi að koma aftur til að fylgja velgengninni eftir.- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.