Lífið

Píanói stolið af tökustaðnum

Píanói sem átti að nota í myndbandi hljómsveitarinnar Vigra var stolið af tökustaðnum. fréttablaðið/valli
Píanói sem átti að nota í myndbandi hljómsveitarinnar Vigra var stolið af tökustaðnum. fréttablaðið/valli
Hljómsveitin Vigri varð fyrir þeirri makalausu reynslu að píanói var stolið frá sveitinni við tökur á nýju myndbandi. Um eitt hundrað aukaleikarar tóku þátt í tökunum. Píanói var stolið frá hljómsveitinni Vigra við tökur á myndbandi hennar við lagið Skikkan Skaparans. Tökurnar fóru fram við Slippinn í Reykjavíkurhöfn og átti píanóið að vera í sjónum í myndbandinu.

„Við komum þarna með píanóið í sendiferðabíl og skutumst svo frá í eina klukkustund. Síðan var það bara horfið,“ segir Bjarki Pjetursson, liðsmaður Vigra. „Við fórum í Sorpu og tékkuðum hvort einhver hefði hent því en þar kannaðist enginn við píanóið. Við löbbuðum líka út með sjónum til að athuga hvort sjórinn hefði tekið það en svo var ekki. Þetta var mjög furðulegt,“ segir Bjarki og undrast að einhver hafi gerst svo kræfur að stela níðþungu píanóinu. „Það er eins og það hafi gufað upp. Þetta var alveg ótrúlegt.“

Myndbandið var tekið í einni töku í leikstjórn Ragnars Snorrasonar og fjallar um jarðarför. Það verður frumsýnt á tónleikum Vigra í Fríkirkjunni á fimmtudagskvöld þar sem útgáfu plötunnar Pink Boats, sem kom út í júní, verður fagnað.

Hátt í eitt hundrað aukaleikarar mættu í Slippinn til að leggja hljómsveitinni lið við gerð myndbandsins, þar á meðal knattspyrnukapparnir Guðmundur Reynir Gunnarsson og Skúli Jón Friðgeirsson úr KR sem eru vinir þeirra Vigra-manna.

Hljómsveitin hefur áður sent frá sér myndband við lagið Sleep, einnig í leikstjórn Ragnars. Það vakti mikla athygli og hlaut tilnefningar til verðlauna á erlendum kvikmyndahátíðum í vor.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.