Lífið

Sigurjón krafinn um sex milljónir króna

Sigurjón Sighvatsson segir mál Jay Burnley vera hið undarlegasta og hann á ekki von á öðru en að því verði vísað frá eftir viku.
Sigurjón Sighvatsson segir mál Jay Burnley vera hið undarlegasta og hann á ekki von á öðru en að því verði vísað frá eftir viku.
„Stefnan hefur ekki verið birt og því er líklegt að hér hafi bara verið um tilraun til að reyna að fá okkur til að semja um þessa upphæð til að varna því að fréttin færi í loftið,“ segir Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi í Hollywood.

Vefsíðan TheWrap.com birti fyrir skemmstu frétt þess efnis að maður að nafni Jay Burnley, fyrrverandi þróunarstjóri Sigurjóns í Hollywood, hefði lagt fram kröfu fyrir héraðsdómi Los Angeles þar sem hann krefur Sigurjón Sighvatsson um greiðslu 50 þúsund dollara, um 5,8 milljónir íslenskra króna, fyrir svik og samningsrof vegna kvikmyndarinnar Killer Elite. Myndin verður frumsýnd á föstudaginn. Burnley segist hafa unnið að myndinni í sjö ár og hjálpað til við að koma henni á hvíta tjaldið. Honum hafi í staðinn verið boðin staða meðframleiðanda og áðurnefnda upphæð en ekki hafi verið staðið við þau loforð.

Sigurjón segir mál af þessu tagi algeng í Hollywood og nefnir sem dæmi frægt húðflúrsmál í tengslum við Hangover 2. „Þar sem ljósin eru skærust eru skuggarnir stærstir. Og það er ýmislegt ljótt sem býr í skugganum.“ Hann segir málið hið undarlegasta því Burnley þessi hafi fyrir það fyrsta ekkert skriflegt í höndunum. Þá sé hann auk þess starfsmaður vefmiðilsins sem birti fréttina upphaflega. Sem kemur einnig fram í frétt TheWrap.com. „Krafan er algerlega staðlaus. Þar að auki er hún svo lág að viðkomandi aðili vill hvetja okkur til að greiða og semja því það kostar í það minnsta tvöfalt meira að verja sig gagnvart henni.“ Sigurjón bendir jafnframt á að krafan kemur rétt áður en myndin er frumsýnd en Burnley þessi hafi hætt störfum hjá sér fyrir tveimur árum. „Ég er nánast alveg handviss um að þessu máli verði vísað frá eftir viku.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.