Lífið

Magni táraðist á Twenty

Haraldur V. Sveinbjörnsson, Franz Gunnarsson, Biggi Kára, Magni Ásgeirsson, Eyrún Huld Haraldsdóttir og Stefán Þórhallsson.
Haraldur V. Sveinbjörnsson, Franz Gunnarsson, Biggi Kára, Magni Ásgeirsson, Eyrún Huld Haraldsdóttir og Stefán Þórhallsson. Fréttablaðið/Vilhelm
Aðdáendur Pearl Jam flykktust í Háskólabíó á þriðjudagskvöld til að sjá heimildarmyndina Twenty sem fjallar um tuttugu ára feril bandarísku grönssveitarinnar. Rokkarinn Magni Ásgeirsson var einn þeirra.

Twenty er eftir Óskarsverðlaunaleikstjórann Cameron Crowe og var gerð í tilefni tuttugu ára starfsafmælis Pearl Jam. Myndin var sýnd samtímis í vel völdum kvikmyndahúsum um allan heim og hér á Íslandi varð Háskólabíó fyrir valinu fyrir tilstuðlan Græna ljóssins.

Rokkarinn Magni Ásgeirsson mætti á sýninguna ásamt konu sinni og félögum úr tónlistarbransanum og skemmti sér konunglega. „Mig langaði að gráta en ég kunni ekki við það. Þetta eru trúarbrögð fyrir mér. Þetta var yndislegt," segir hann. „Maður táraðist nokkrum sinnum."

Eftir sýninguna dreif Magni sig á Gauk á Stöng og söng með Pearl Jam-heiðurssveitinni við góðar undirtektir. „Við fórum bara niður á Gauk og tókum einhvern einn og hálfan tíma. Kristó [Kristófer Jensson] söng nokkur lög. Þetta var alveg klikkað."

Spurður hvort þeir hafi ekki verið í hörkuformi, svona rétt eftir að hafa séð Twenty, sagði hann léttur: „Við vorum alveg hörmulegir eftir myndina. Það fyrsta sem Stebbi [Stefán Þórhallsson] sagði á sviðinu var: „Við erum ekkert að fara að spila á eftir þessu." Nei annars, þetta var mjög gaman."

Hægt er að fletta myndasafni frá sýningunni í Háskólabíó með því að smella á myndina hér fyrir ofan.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×