Lífið

Rakst á Önnu Wintour

Brynja á tískupallinum fyrir hönnuðinn Roksöndu Ilincic.
Brynja á tískupallinum fyrir hönnuðinn Roksöndu Ilincic. Nordicphotos/Getty
„Þetta er búið að ganga vel og ég man ekki einu sinni hvað ég var á mörgum sýningum," segir Brynja Jónbjarnardóttir fyrirsæta en hún var að vinna á nýafstaðinni tískuviku í London.

Brynja er 17 ára gömul og flutti út til London fyrir tíu dögum en hún hyggst láta reyna á fyrirsætustarfið næsta árið. Hún sýndi meðal annars sumartískuna fyrir hönnuðina Danielle Scutt og Roksöndu Ilincic, en síðarnefnda sýningin var hennar uppáhalds.

„Það var rosalega flott sýning í gömlum kastala og falleg píanótónlist var spiluð undir. Á meðan ég stóð baksviðs og beið eftir að sýningin byrjaði rakst ég á Önnu Wintour. Það var skemmtilegt að sjá hana í eigin persónu," segir Brynja en Wintour er áhrifamikil í tískuheiminum enda ritstjóri hins bandaríska Vogue.

Brynja á tískupallinum fyrir hönnuðinn Danielle Scutt.Nordicphotos/Getty
Þegar Fréttablaðið náði tali af Brynju var hún að vinna að verkefni fyrir fatahönnuðinn Tom Ford. Ford er mjög virt nafn í tískuheiminum en hann var yfirhönnuður bæði Gucci og YSL tískuhúsanna. Brynja var ráðin, ásamt tveimur öðrum fyrirsætum, til að sýna sumarlínu Ford næstu þrjár vikurnar en mikil leynd hvílir yfir fatnaðinum frá Ford í ár.

„Ég er bæði að sitja fyrir í myndatökum og svo á lokuðum tískusýningum fyrir útvalda inn á milli. Þetta er hörkuvinna frá 8 til 19 alla daga en skemmtilegt og mjög falleg föt, meira má ég ekki segja."

Foreldrar Brynju styðja hana í vinnu sinni en hún stundar fjarnám við Fjölbrautaskólann við Ármúla samhliða fyrirsætustarfinu. „Þau sakna mín mikið og ég þeirra en þau ætla að heimsækja mig sem fyrst," segir Brynja. Hún er mikið á flakkinu og heldur beint til New York þegar törninni í London lýkur.

„Ég hef gaman af að ferðast og á meðan mér gengur vel held ég áfram." - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.