Lífið

Verður í beinni útsendingu í 750 kvikmyndahúsum

Öllu er tjaldað til í afmælisuppfærslu Óperudraugsins eftir Andrew Lloyd Webber, en hann á 25 ára afmæli. Garðar Thor Cortes er meðal þeirra sem syngja í sýningunni. NordicPhotos/Getty
Öllu er tjaldað til í afmælisuppfærslu Óperudraugsins eftir Andrew Lloyd Webber, en hann á 25 ára afmæli. Garðar Thor Cortes er meðal þeirra sem syngja í sýningunni. NordicPhotos/Getty
„Það er mjög gaman að fá að taka þátt í þessu ævintýri,“ segir tenórinn Garðar Thor Cortes. Hann er staddur í London um þessar mundir að æfa fyrir sérstaka afmælisuppfærslu Óperudraugsins eftir Andrew Lloyd Webber, en 25 ár eru liðin frá því að söngleikurinn var frumsýndur fyrst á fjölum West End. Óperudraugurinn hefur notið næstum fáránlegra vinsælda, hann hefur velt 3,2 milljörðum punda í miðasölu á heimsvísu, sem þýðir að hann slær við kvikmyndum á borð við Titanic og E.T. Þá hefur hann verið settur upp í 145 borgum í 27 löndum og sýndur fyrir meira en 130 milljónir leikhúsgesta.

Einvalalið kemur að sýningunni, sem verður í sjálfri Royal Albert Hall helgina 1. og 2. október. „Við syngjum eina sýningu á laugardeginum og síðan tvær á sunnudeginum,“ segir Garðar, en áhuginn á afmælinu er slíkur að beinar útsendingar verða í 250 kvikmyndahúsum í Bretlandi og 500 í Bandaríkjunum. Þá hafa tekist samningar um að sýna einnig í Ástralíu og Kanada. Hinni frægu tónleikahöll verður breytt í leikhús og margir af fremstu söngvurum Broadway og West End syngja titilhlutverkin. „Þetta eru kannski söngvarar sem fólk heima á Íslandi þekkir ekki en eru miklar söngleikjastjörnur hérna úti og alveg æðislega flottir,“ segir Garðar.

Tenórinn er ekki að taka þátt í söngleiknum í fyrsta sinni því hann lék elskhugann Raoul árið 1999 á West End eins og mörgum er eflaust enn í fersku minni. Og fékk afbragðsgóða dóma fyrir. „Ég söng hann þegar ég var 25 ára en núna leik ég Passirino, sem er ögn minna hlutverk og er aðallega í öðrum söngþætti,“ útskýrir Garðar.

Fyrir nokkrum árum varð varla þverfótað fyrir fréttum af Garðari að sigra hin ýmsu lönd með röddina og sjarmann að vopni. Garðar segist ekki vera hættur að syngja í útlöndum, það sé stór hluti af lífinu í hinum sígilda tónlistarheimi. „Það er alltaf eitthvað í gangi og maður er eiginlega alltaf á stöðugu ferðalagi með ferðatöskuna opna. Ég reyni að vera sem mest heima þótt það gangi ekki alltaf eftir.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.