Innlent

Greiðsla bóta kemur til greina

Guðrún Ebba.
Guðrún Ebba.
Formaður úrbótanefndar kirkjuþings segir vel koma til greina að greiða Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur sanngirnisbætur vegna vinnubragða þjóðkirkjunnar í máli hennar, sem hluta af sáttaferli milli hennar og kirkjunnar.

Nefndin, sem úrskurðaði í júlí að þremur konum yrðu greiddar sanngirnisbætur vegna mistaka sem urðu í kjölfar frásagna þeirra af misnotkun Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, hefur verið í samskiptum við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur síðan í sumar. Fjárhæðin nam alls fimm milljónum króna.

Magnús E. Kristjánsson, formaður nefndarinnar, segir mál Guðrúnar Ebbu vera í farvegi og verið sé að vinna að því að koma á sátt milli hennar og kirkjunnar.

„Það verður þó að horfa á hlutina í stærra samhengi,“ segir Magnús. „Það sem við erum að leita eftir er á breiðari grunni en fébætur, sem yrðu einungis hluti af viðurkenningu frá kirkjunni. Við erum að ræða við hana og vonumst til þess að það sé hægt að ganga frá góðri sátt.“

Magnús vill ekki greina frá viðræðunum við Guðrúnu Ebbu í smáatriðum, en segir grunnforsendu fyrir þeim að ná sátt við hana eftir þá hræðilegu reynslu sem hún hafi upplifað af hendi föður síns.

„Við viljum vinna að því að varpa ljósi á þessa skelfilegu hluti til að koma í veg fyrir að þeir endurtaki sig,“ segir Magnús.

Karl Sigurbjörnsson biskup gaf ekki kost á sér í viðtal við Fréttablaðið í gær.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×