Innlent

Hættulegt leiktæki strax lagað

Ný leikaðstaða Þórólfur Jónsson garðyrkjustjóri segir að ný leikaðstaða verði gerð við Kjarvalsstaði.fréttablaðið/pjetur
Ný leikaðstaða Þórólfur Jónsson garðyrkjustjóri segir að ný leikaðstaða verði gerð við Kjarvalsstaði.fréttablaðið/pjetur
„Framleiðandi leiktækisins fór strax í morgun til að kanna ástand þess. Það var greinilega eitthvað að vírnum og hann verður strax lagaður. Þetta var nýtt tæki sem sett var upp á Klambratúni í fyrravetur,“ sagði Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, í gær.

Steinunn Þórhallsdóttir, formaður Íbúasamtaka Hlíða, Holta og Norðurmýri, sagði þá í viðtali við Fréttablaðið að aparóla á leikvelli túnsins væri hættuleg vegna trosnaðs vírs. Hún sagði jafnframt að eitt helsta vandamálið við leikvöllinn væri hversu nálægt Miklubrautinni hann væri. Þórólfur getur þess að ekki standi til að færa leikvöllinn, sem hann segir vera í um 60 metra fjarlægð frá Miklubrautinni, nær Kjarvalsstöðum eins og íbúasamtökin hafi lagt til.

„Það er ráðgert að byggja nýja leikaðstöðu við Kjarvalsstaði. Við vonumst til þess að fá fjárveitingu til þess að hægt verði að klára verkið á næsta ári. Það hafa komið fram hugmyndir um að leikvöllurinn þar verði ekki hefðbundinn, heldur komi listamenn að gerð leiktækjanna.“- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×