Innlent

Jákvæð þróun í stuttum skrefum milli ára

Önnur framvinduskýrsla framkvæmdastjórnar ESB um aðildarferli Íslands var gefin var út í gær. Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi, kynnti skýrsluna og sagði við það tilefni að ferlið gengi vel fyrir sig og skýrslan undirstrikaði jákvæða þróun mála.

Ekki kemur á óvart að Ísland er talið uppfylla mörg aðildarskilyrði, þá sérstaklega þau sem lúta að málum sem heyra undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og Schengen-samstarfið.

Varðandi pólitísk skilyrði aðildar segir skýrslan að Ísland uppfylli kröfur ESB, en þó er sérstaklega vikið að því að Ísland hafi styrkt regluverk sitt gegn spillingu með því að samþykkja sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu, auk þess sem unnið hafi verið gegn ýmis konar hagsmunaárekstrum í stjórnsýslunni. Þá hafi margir dómarar verið skipaðir eftir endurbættum reglum þar um, en um það fjallaði ein af helstu athugasemdunum í framvinduskýrslunni í fyrra.

Varðandi efnahagsskilyrði segir í skýrslunni að Ísland eigi að geta staðið sig innan regluverks ESB, að því gefnu að framhald verði á umbótum til styrktar efnahagslífinu. Þegar hafi margt unnist til að ná efnahagslegum stöðugleika sem sé undirstaða hagvaxtar en þó sé skuldastaða fyrirtækja og heimila og atvinnuleysi áhyggjuefni, sem og gjaldeyrishöftin, sem gangi í berhögg við lög ESB.

Loks eru talin upp erfiðustu álitamálin í áframhaldandi samningaviðræðum og kemur varla á óvart að þar eru tiltekin sjávarútvegur, landbúnaður, hvalveiðar og tollar.

Næsta samningalota milli Íslands og ESB hefst í Brussel í næstu viku, þar sem tveir samningakaflar verða opnaðir, en næsta lota eftir það hefst 19. desember.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×