
Lilja er með barn á leikskóla í borginni og borgar rúmar 17 þúsund krónur á mánuði fyrir leikskólaplássið. Um síðustu mánaðamót var henni hins vegar sendur reikningur upp á rúmar 32 þúsund krónur sem var greiddur sjálfkrafa af bankanum hennar. Um mistök var að ræða en þegar Lilja bað Skóla- og frístundasvið borgarinnar um að bakfæra reikninginn fékk hún þau svör að það væri ekki hægt.
„Ég fékk þau svör að þau gætu ekki lagað þetta fyrir mig heldur yrði þetta leyst þannig að næsti reikningur yrði upp á rúmar 2 þúsund krónur. Ég fengi sem sagt endurgreitt með lægri reikningi um næstu mánaðamót,“ segir Lilja og heldur áfram:
„Þessi lausn hins vegar gerir afskaplega lítið fyrir mig. Ég þarf þennan pening núna til að lifa út þennan mánuð, ég má ekki við neinu svona. Ég hef 30 þúsund krónur til ráðstöfunar við hver mánaðamót þegar ég er búin að borga mína reikninga og þarna er búið að taka af mér pening fyrir tvær vikur mánaðarins. Og þegar ég spyr hvað ég eigi eiginlega að gera, svelta síðari hluta mánaðarins? Þá fæ ég þau svör að það sé ekkert sem þau geti gert í því.“
Lilja segir að henni hafi liðið mjög illa í kjölfar þessara samskipta og haft miklar áhyggjur af því hvernig eigi nú að láta enda ná saman í mánuðinum. Hún segist eiga góða að en að það séu takmörk fyrir því hversu mikið fjölskylda sín geti hjálpað sér.
Fréttablaðið spurðist fyrir um málið hjá skóla- og frístundasviði borgarinnar og fékk þau svör að um misskilning væri að ræða. „Það er ekkert mál að hún fái þetta bakfært óski hún eftir því,“ sagði Sigrún Björnsdóttir upplýsingafulltrúi og bætti við:
„Það kannast enginn við að hafa hafnað þessari beiðni hennar og því ætti hún bara að hafa samband og gefa upp bankaupplýsingar. Þá væri hægt að ganga frá þessu.“
Í kjölfarið hafði Lilja samband við borgina aftur en fékk sömu svör og í fyrra skiptið. „Ekkert endurgreitt en næsti reikningur lækkaður. Þetta voru bara sagðar reglur hjá þeim sem ekki væri hægt að fara fram hjá,“ segir Lilja.
magnusl@frettabladid.is