Innlent

Lögmenn Eimskips fara yfir stefnuna

Fulltrúar Eimskips eru nú að skoða stefnu frá Samskipum, sem er löng og mikil, og fara yfir stöðu mála, að sögn Ólafs Williams Hand, upplýsingafulltrúa Eimskips. Samskip krefjast 3,7 milljarða króna auk vaxta í skaðabætur vegna samkeppnisbrota Eimskipafélags Íslands á árunum 1999 til 2002.

„Að mínu mati er þetta farsakennd, skrýtin stefna og tölurnar eru brjálæðislega háar. Það er ekki á hverjum degi sem við vöknum við að félag er búið að stefna okkur upp á tæpa fjóra milljarða. Það er ekki eitthvað sem maður vill fá með kaffibollanum sínum,“ segir Ólafur. „En við getum lítið sagt um þetta mál annað en það að þetta er há upphæð og mikil stefna sem lögmenn okkar eru að fara yfir.“

Ekki náðist í Gylfa Sigfússon, forstjóra Eimskips, en hann er staddur erlendis.

Fulltrúar Samskipa sögðu í tilkynningu að stjórnin hefði ákveðið að bætur, sem félaginu kunna að verða greiddar, renni til góðgerðamála að frádregnum málskostnaði.

„Við erum að leggja áherslu á að þetta er prinsippmál að fylgja eftir. Niðurstaðan er ekki aðalatriðið,“ segir Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa. „Við leggjum inn kvörtun árið 2002 og málið er í vinnslu til 2008. Úrskurður Samkeppniseftirlitsins er kýrskýr, sem Eimskip gengst við. Og við erum að fylgja því eftir.“ - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×