Innlent

Kallar eftir rökstuðningi

steingrímur j. sigfússon
steingrímur j. sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir mjög óheppilegt ef ekki ríkir traust og friður um ráðningar í lykilembætti í stjórnsýslunni. Þetta kom fram á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gærmorgun, þar sem Steingrímur var spurður um afstöðu sína til ráðningar Páls Magnússonar sem forstjóra Bankasýslu ríkisins.

Steingrímur sagðist hafa kallað eftir upplýsingum og rökstuðningi fyrir ráðningunni frá stjórn Bankasýslunnar. „Það var niðurstaða okkar að það væri eðlilegt fyrsta skref af okkar hálfu í málinu og við bíðum eftir því að fá þau gögn frá Bankasýslunni áður en ákvörðun verður tekin um eitthvað frekar," sagði Steingrímur.

Hann kvaðst vænta svara mjög fljótlega, en auk upplýsingabeiðninnar frá ráðuneytinu hefðu ósáttir umsækjendur um stöðuna óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni.

Hann sagði ófriðinn og vantraustið sem ríkti vegna ráðningarinnar vera sjálfstætt mál að takast á við, óháð því hvað mönnum fyndist nákvæmlega um viðkomandi ráðningu.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×