Innlent

Ferðamönnum fjölgar vegna Hörpu

Tilkoma tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu mun fjölga ferðamönnum sem koma til Íslands á hverju ári.

Tekjur tilkomnar vegna þessa gætu á næstu árum verið á bilinu 1 til 1,4 milljarðar króna á ári og orðið allt að þrír milljarðar á ári. Þetta er niðurstaða Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem hefur gefið út skýrslu um áhrif Hörpu á komu ferðamanna.

Sérstaklega er í skýrslunni horft til þeirra erlendu ferðamanna sem kunna að sækja ráðstefnur í Hörpu. Þá telja skýrsluhöfundar að tónlistarviðburðir í Hörpu muni einnig draga að ferðamenn.

Í skýrslunni er loks bent á að Harpa er þegar farin að hafa áhrif á fjölda ferðamanna. Bókaðar og staðfestar hafa verið 24 ráðstefnur í Hörpu til ársins 2015. Gert er ráð fyrir að 14.000 þátttakendur sæki umræddar ráðstefnur, að stærstum hluta erlendir gestir. Þá er bent á að um 300 erlendir gestir sóttu tónleika Jonasar Kaufmann í Hörpu í maí.

Stefnt er að því að gera frekari mælingar á því hversu margir erlendir ferðamenn koma hingað til lands vegna viðburða og ráðstefna í Hörpu eða vegna umfjöllunar um húsið í erlendum fjölmiðlum.- mþl /




Fleiri fréttir

Sjá meira


×