Innlent

Fjárheimildir hækka um 14 milljarða

fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir frumvarpi til fjáraukalaga í gær. Útgjöld aukast töluvert vegna kjarasamninga.
fréttablaðið/anton
fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir frumvarpi til fjáraukalaga í gær. Útgjöld aukast töluvert vegna kjarasamninga. fréttablaðið/anton
Óskað er eftir hækkunum fjárheimilda ríkissjóðs um 14,2 milljarða króna í fjáraukalögum fyrir árið 2011, en þau voru lögð fram á þingi í gær. Stærstu útgjaldaliðirnir tengjast kjarasamningum.

Tekjuáætlun ársins 2011 er hækkuð um 10 milljarða, þar sem 3,8 prósenta betri innheimta hefur verið á tekjum fyrstu 8 mánuði ársins en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar af hækka frumtekjur um 9,3 milljarða og vaxtatekjur um 0,8 milljarða.

Í skýringum með frumvarpinu segir að mestar breytingar fjárheimilda eigi rætur að rekja til áhrifa af kjarasamningum sem gerðir hafa verið á árinu og hækkana á bótum almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga sem ákveðnar voru í kjölfarið á því. Meðalhækkun á launaliðum stofnana vegna kjarasamninga er rétt um 5 prósent í frumvarpinu en bótagreiðslur voru hækkaðar um 8,1 prósent.

Gert er ráð fyrir að í ár verði heildartekjur ríkissjóðs 482,7 milljarðar króna á rekstrargrunni og heildargjöld 524 milljarðar króna. Áætlað er að heildarjöfnuður ársins verði neikvæður um 41,3 milljarða en frumjöfnuður jákvæður um 4,5 milljarða. Reiknað er með að handbært fé frá rekstri verði neikvætt um tæpa 52 milljarða króna og hreinn lánsfjárjöfnuður neikvæður um 46 milljarða. - kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×