Tónlist

Gott að semja með kærastanum

song for wendy Fyrsta plata Bryndísar Jakobsdóttur og Mads Mouritz kemur út í næstu viku.fréttablaðið/hag
song for wendy Fyrsta plata Bryndísar Jakobsdóttur og Mads Mouritz kemur út í næstu viku.fréttablaðið/hag
„Ég er ótrúlega spennt. Ég hlakka svo mikið til,“ segir Bryndís Jakobsdóttir sem spilar í Kaldalónssal Hörpunnar á laugardagskvöld.

Þar kynnir hún fyrstu plötu dúettsins Song For Wendy, Meeting Point, sem kemur út í lok næstu viku á vegum Senu. Sveitin er samstarf Bryndísar og kærasta hennar, Danans Mads Mouritz. Þau kynntust árið 2008 í vinnubúðum fyrir lagasmiði á vegum tónlistarhátíðarinnar Spot í Árósum og hafa síðan þá unnið mikið saman í tónlistinni. „Við höfum verið að hjálpast mikið að en svo ákváðum við að byrja að semja saman og það gekk eitthvað svo vel. Það var allt saman svo auðvelt ferli. Við áttum aldrei í vandræðum með að semja saman,“ segir Bryndís.

Hún og Mads tóku upp plötuna eftir að hafa farið í tónleikaferðalag í desember í fyrra. Áður höfðu þau safnað saman mörgum af sínum uppáhaldsljóðum og voru lögin samin undir áhrifum frá þeim.

Í Hörpunni á laugardagskvöld verða þau tvö á sviðinu. Bæði syngja þau auk þess sem Mads spilar á kassagítar á meðan Bryndís býr til alls kyns falleg hljóð í tölvunni sinni. Lögin eru mörg hver rómantísk og hugguleg með elektrónískum áhrifum.

Bryndís segist vera með annan fótinn á Íslandi en þau Mads fara til Danmerkur á mánudag ásamt syni sínum Magnúsi sem er níu mánaða. Eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu stundar hún lagasmíðanám við The Royal Danish Academy of Music og er einnig að vinna að næstu sólóplötu sinni. Sú fyrsta kom út fyrir þremur árum við góðar undirtektir. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×