Innlent

Reglur settar um siglingar við Ísland

Árni Þór sigurðsson
Árni Þór sigurðsson
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hefur ásamt átta þingmönnum úr fjórum flokkum lagt fram tillögu um að Alþingi feli innanríkisráðherra að semja reglur um siglingaleiðir við norðan- og vestanvert landið. Verkið verði unnið í samvinnu við umhverfisráðherra og utanríkisráðherra.

Tillagan var tekin fyrir í umhverfis- og samgöngunefnd á dögunum. Árni Þór segir að auknir flutningar á norðurslóðum, sem tengjast loftslagsbreytingum, séu hvatinn að tillögunni. Ekki síst sé horft á opnun skipaleiða fyrir norðan Rússland, en þær muni hafa í för með sér aukna skipaumferð við Ísland.

Settar voru reglur um siglingaleiðir fyrir austan- og sunnanvert land fyrir nokkrum árum og Árni Þór segir tillöguna nú framhald á þeirri vinnu. Tillagan var fyrst lögð fram í mars 2008, en fékkst ekki tekin til umræðu.

„Þetta er ekki síst mikilvægt umhverfis- og öryggismál. Þetta er náttúrulega alþjóðlegt hafsvæði og ekki hægt að banna skipaumferð. En það er hægt að setja reglur og leita alþjóðlegrar viðurkenningar á þeim, eins og gert er ráð fyrir í tillögunni.“

Árni Þór var í Síberíu í síðustu viku og hélt erindi á ráðstefnu um samstarf Íslands og Rússlands á norðurslóðum.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×