Innlent

Innbrotafaraldur í Þorlákshöfn

lögreglan Rannsakar fjölda innbrota.
lögreglan Rannsakar fjölda innbrota.
Innbrotafaraldur hefur geisað í Þorlákshöfn undanfarnar helgar. Að sögn lögreglunnar á Selfossi, sem rannsakar málin, virðast þau tengjast. Íbúarnir ræða nú nauðsyn þess að koma upp eftirlitsmyndavélum á hringtorgi við bæinn og vegum sem liggja að honum.

Að undanförnu hefur verið brotist inn á tvo veitingastaði. Á báðum stöðum var stolið flatskjáum og bjór og á öðrum þeirra var peningakassinn tæmdur. Í öðru tilvikinu þurfti að nota slípirokk til að komast að flatskjánum.

Í Bíliðjunni í Þorlákshöfn var bíl stolið í tvígang. Í fyrra skiptið voru piltar undir tvítugu að verki en í hið síðara fimmtán og sextán ára piltar. Hinir síðarnefndu voru stöðvaðir af lögreglu á Arnarnesi í Garðabæ um nýliðna helgi. Sá sextán ára var við stýrið en hinn í framsætinu.

Enn fremur var brotist inn á smíðaverkstæði í Þorlákshöfn og rótað í lyfjakassa þar.

Fyrirtækið Járnkarlinn varð einnig fyrir barðinu á innbrotsþjófum, sem stálu þar myndavél. Þeir skildu eftir sig íþróttatösku með kúbeini á staðnum. Innbrotsþjófarnir hafa heimsótt fleiri fyrirtæki og verslanir, þar sem þeir hafa ýmist rótað til eða haft á brott með sér þýfi sem þeir ágirntust.- hs, jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×