Innlent

Fylgdarþjónusta notar myndir af Ásdísi Rán

„Blessaður vertu, fólkið í Búlgaríu er ekki jafn þröngsýnt og á Íslandi, það myndi enginn trúa því að þetta væri ég hérna úti,“ segir Ásdís Rán Gunnarsdóttir, ofurfyrirsæta í Búlgaríu.

Á vefsíðunni angelsofsofia.com, sem er heimasíða vændisþjónustu í höfuðborg Búlgaríu, birtir notandi undir nafninu Kamelia þokkafullar myndir af Ásdísi Rán og fullyrðir að þær séu af sér.

„i am fotodmodel, my pictures are real,“ skrifar hún á ensku því til staðfestingar. Og lætur fylgja með símanúmer sem Fréttablaðið prófaði en hafði ekki erindi sem erfiði, númerið var ekki tengt. Kamelia þessi hefur reyndar áður notast við heimsfræga fyrirsætu á sinni síðu, fyrir skemmstu var hún með myndir af Pamelu Anderson á sinni síðu.

Ásdís kippir sér hins vegar lítið upp við þetta þrátt fyrir að hafa eytt ómældum tíma í að byggja upp glæst orðspor í Búlgaríu. Hún opnaði til að mynda undirfataverslun fyrir hálfum mánuði sem hlaut mikla athygli í búlgörskum fjömiðlum.

„Þetta er ekkert í fyrsta skipti sem það birtast myndir af mér á einhverjum svona síðum, þetta er bara gangurinn í þessum bransa. Þú getur fundið myndir af mér á alls konar síðum og yfirleitt þegar ég fæ svona ábendingar þá tekst mér að láta fjarlæga þetta strax.“ segir Ásdís, alveg pollróleg. „Það er bara engin leið til að stoppa þetta.“- fgg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×