Skoðun

Vaknið nátttröll

Alkunna er að hér á Suðurnesjum er atvinnuleysi alvarlegast á landinu. Þversögnin er hins vegar sú að stærsta og raunhæfasta lausnin á atvinnuleysinu er rétt innan seilingar og hefur verið tilbúin undanfarin ár. Það sem á skortir er fyrst og fremst pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar til að standa við fjárfestingarsamning um álver í Helguvík og þar með vilji fjármálaráðherra til að létta sérhönnuðum pólitískum fjötrum af Landsvirkjun.

Á nýlegum íbúafundi í Garðinum um atvinnu- og orkumál kom fram í máli Kristjáns L. Möller, formanns atvinnuveganefndar Alþingis, að Helguvík væri eina stóra atvinnuskapandi verkefnið á Íslandi sem tilbúið væri til framkvæmda næstu tvö árin. Umhverfismati væri lokið, starfsleyfi fengið, samningar klárir við birgja og verktaka, fjármögnun tryggð og búin. Það eina sem vantaði væri að ganga endanlega frá orkusölumálum til álversins. Ljóst væri að þar yrði Landsvirkjun að koma að málum til að hrinda þessu mikilvæga verkefni af stað.

Viðræður hafa verið í gangi um verð og magn. Sú stefna Landsvirkjunar að fá sem hæst verð fyrir sína orku er sjálfsögð, þær áherslur eru alls ekki nýjar af nálinni. Hins vegar má benda á að LV stefnir á að selja 1.500 MW í framtíðinni þannig að 10% af því, 150 MW til Norðuráls í áföngum á næstu 4-5 árum, er mjög góður leikur. Það kemur hlutum af stað hér á Íslandi – og það er akkúrat það sem þarf nú. Endalaust má þrátta um verð en nú verður að loka þessum samningum. Það er þjóðþrifamál.

Það má auglýsa eftir fólki til starfa í Helguvík helgina eftir að samningar nást. Hagvöxtur mun aukast og forsendur fjárlaga, sem eru harla veikar, munu jafnvel halda. Tvö þúsund heimili fá fyrirvinnu og afkoma hins opinbera batnar um a.m.k. 12 milljarða á ári.

Pólítísk stóriðja þeirra sem reyna að ganga í augun á kjósendum sínum með öfgafullum fjötrum á atvinnuuppbyggingu skapar ekki atvinnu hér á Suðurnesjum. Tími framkvæmda við raunveruleg atvinnuskapandi verkefni er hins vegar löngu kominn. Hefjumst handa og vinnum allri þjóðinni gagn!




Skoðun

Sjá meira


×