Innlent

Álitamál hvort skoða má símreikning

Sigurður G. Guðjónsson
Sigurður G. Guðjónsson
Fram kemur í lögbannskröfu Iceland Express að starfsmenn félagsins hafi komist á snoðir um fyrirætlanir Matthíasar með því að skoða yfirlit yfir notkun hans á farsíma sem hann fékk að taka með sér frá félaginu en það greiddi fyrir út sex mánaða uppsagnarfrestinn. Þar hafi komið í ljós að hann hafi átt í samskiptum við viðskiptavini og starfsmenn Iceland Express eftir starfslok sín og reynt að lokka þá til liðs við nýtt flugfélag.

Í fjarskiptalögum eru ákvæði um sundurliðaða símreikninga og þar segir að áskrifandi að fjarskiptaþjónustu eigi rétt á að skoða slíkan sundurliðaðan reikning. Björn Geirsson, forstöðumaður lögfræðideildar Póst- og fjarskiptastofnunar, segir hins vegar álitamál hvernig skuli túlka þetta ákvæði.

„Greinarmunurinn á áskrifanda og notanda í þessu sambandi er ekki skýr í fjarskiptalögum. Það má hugsanlega leiða út frá ákvæðum persónuverndarlaga að persónuvernd einstaklingsins eigi ekki að miðast við hvort hann er greiðandi að reikningnum eða ekki. Þarna er um persónulega notkun að ræða, nema það hafi verið einhverjir sérstakir skilmálar um að símtækið yrði bara notað í starfstengd símtöl. En þetta eru bara almennar vangaveltur og við tökum enga afstöðu til svona máls nema það komi inn á okkar borð sem kvörtun,“ segir Björn.

Sigurður G. Guðjónsson, lögfræðingur Iceland Express, segir fráleitt að það standist ekki lög og reglur að skoða sundurliðaðan símreikning sem Iceland Express greiði fyrir. Slíkt tíðkist þó ekki hjá félaginu. „En allt í einu koma starfsmenn til okkar og segja: Matthías er stöðugt að hringja í okkur og bjóða okkur störf. Svo er verið að tala við erlenda birgja og þá segja þeir: Matthías er alltaf að hringja í okkur og bjóða okkur eitthvað nýtt. Auðvitað vilja menn þá ganga úr skugga um að það sé rétt og þá blasir það bara við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×