Skoðun

Athugasemd við birtingu á vísu

Í Fréttablaðinu í gær er birt vísa, sem sögð er „vísa Ómars“, þ. e. undirritaðs.

Ekki var haft við mig samband út af birtingunni vegna höfundarréttar né heldur vísan sett í samhengi sitt. Það var slæmt, því vísan er ekki eftir mig heldur þrjá höfunda (reyndar alger undantekning hjá mér að fá að nota vísur eftir aðra), og samhengið stórum villandi.

Hið rétta er þetta: Vegna samskipta forsætisráðherra og forseta datt mér í hug að búa til spjall í skemmtidagskrá minni um hugsanlegt framhald stigmagnaðra samskipta, þar sem fengnir yrðu hagyrðingar til að annast hnútukastið með þekktum stílbrögðum, samanber hendingar K.N: „skammastu þín, svei þér / go to hell and stay there“, en fornvinur minn Hermann Jóhannesson hafði einmitt notað slíkt í nýrri vísu auk annarrar gamallar hendingar. Skilyrði í hnútukastinu yrði að nota a. m. k. eitt erlent orð í hverri vísu.

Pistill minn fól í sér þrjár vísur en ekki þá einu sem birt var í gær.

1. Bréf til Jóhönnu frá Ólafi:

„Andúð mín nú á þér vex

alltaf með þitt röfl og pex, -

táknmynd anda leiðinlegs.

Láttu mig vera, grimma heks!“

2. Jóhanna svarar:

„Öllum við því hugur hrýs

hvernig þú til ills ert vís.

Ólafur Ragnar Grímsson grís

go to hell and stay there, please!“

3. Að lokum takast þó sættir með sameiginlegri vísu beggja hagyrðinga í anda þess þegar Magnús Torfason sýslumaður á Ísafirði leysti illskeytt meiðyrðamál:

„Sáttaviljinn sífellt vex,

sæt og blíð er Jóka heks.

Ólafur Ragnar Grímsson grís,

gefðu"henni nú kossinn, please!“

Yfirbragð framangreinds pistils er allt annað þegar jafnvægis er gætt í honum sem heildar heldur en þegar ein rangfeðruð vísa er slitin úr samhengi.




Skoðun

Sjá meira


×