Innlent

Mikill hugur í rjúpnaskyttum

Vinsæl bráð Umhverfisyfirvöld mælast til hófveiði og vonast til að heildarveiðin fari ekki yfir 31 þúsund fugla.
Vinsæl bráð Umhverfisyfirvöld mælast til hófveiði og vonast til að heildarveiðin fari ekki yfir 31 þúsund fugla.
Rjúpnaveiðitímabilið hófst í gær og eru leyfðar veiðar í alls níu daga fram til 27. nóvember. Rjúpnaskyttur fjölmenna í veiðiverslanir og birgja sig upp af skotum og öðrum nauðsynjum.

Slysavarnafélagið Landsbjörg bendir á að vegna þess hversu fáa daga veiði sé leyfð sé von til þess að ásókn veiðimanna í veiðilendur verði mikil, sem feli í sér hættur. Veiðimenn fari jafnvel til veiða í tvísýnu veðri frekar en að missa af veiðidegi. Minnir Landsbjörg á að björgunarsveitir séu ítrekað kallaðar út til að leita að rjúpnaveiðimönnum þó svo að slíkum leitum fari fækkandi.

Tilfinning Landsbjargar, um mikinn áhuga veiðimanna á að nýta fáa daga vel, virðist á rökum reist því starfsmenn sportveiðiverslana sem Fréttablaðið ræddi við sögðust ekki hafa áður séð eins mikið keypt af skotum og fyrir þetta veiðitímabil.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill minna veiðimenn á að fylgjast vel með veðurspám, gera ferðaáætlun og fara eftir henni. Eins að kynna sér veiðisvæði og huga að fjarskiptum, réttum klæðnaði og sjúkragögnum. Einnig er rétt að hafa hugfast að betra er að snúa við í tíma heldur en að koma sér í ógöngur, segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×