Innlent

Flestir utan vinnumarkaðar

Beðið í röð Þriðjungur þeirra sem þiggur matargjafir af Fjölskylduhjálpinni er með skráða örorku.fréttablaðið/anton
Beðið í röð Þriðjungur þeirra sem þiggur matargjafir af Fjölskylduhjálpinni er með skráða örorku.fréttablaðið/anton
Fjölskylduhjálp Íslands úthlutaði 23.784 matargjöfum til 3.562 einstaklinga og fjölskyldna þeirra frá 1. júní 2010 og út maí á þessu ári. Þetta kemur fram í úttekt sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur gert fyrir Fjölskylduhjálp.

Konur voru í meirihluta þeirra sem fengu úthlutað, eða um 55 prósent. Af þessum 3.562 einstaklingum áttu 1.399 börn. Tveir þriðju skjólstæðinganna á þessu tímabili voru íslenskir ríkisborgarar, fimmtungur með pólskt ríkisfang og tólf prósent með annað erlent ríkisfang. Hlutfall karla var hærra meðal útlendinga.

Mikill meirihluti hópsins var utan vinnumarkaðar, eða 93 prósent. Þá var þriðjungur með skráða örorku. Langflestir, eða 86 prósent, höfðu lokið grunnskólaprófi eða minni menntun. Tæpur þriðjungur fólksins fékk einu sinni úthlutað matargjöf, 28 prósent komu tvisvar til fjórum sinnum, tæpur fimmtungur fimm til níu sinnum og fjórðungur hópsins leitaði tíu sinnum eða oftar til Fjölskylduhjálparinnar á þessu eina ári.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×