Manchester City og Manchester United hafa verið í nokkrum sérflokki í ensku úrvalsdeildinni í vetur en það hefur ekki gengið eins vel hjá liðunum í Meistaradeildinni. Bæði lið eiga það nú sameiginlegt að mega ekki tapa leikjum sínum í næstsíðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Manchester United tekur þá á móti Benfica á Old Trafford en Manchester City heimsækir ítalska liðið Napoli. Liðin eru bæði í öruggu sæti eins og er en það gæti breyst snögglega í kvöld.
Manchester City hefur unnið alla 9 leiki sína síðan Carlos Tevez-málið kom upp í München í lok september og liðið er komið upp í annað sætið í sínum riðli eftir tvo sigra á Villarreal. Verkefni kvöldsins verður ekki af auðveldara taginu því Napoli hefur ekki tapað á heimavelli í tíu Evrópuleikjum í röð. Napoli næði eins stigs forskoti á City með sigri og Ítalirnir mæta síðan Villarreal í lokaumferðinni á sama tíma og City tekur á móti Bayern München.
„Við eigum góða möguleika af því að við erum í öðru sæti en þetta verður mjög erfiður leikur í Napoli. Þetta er síðasti möguleiki Napoli-liðsins og við verðum að spila vel til að sjá til þess að við förum áfram,“ sagði Robert Mancini, stjóri Manchester City, en sigur tryggir City sæti í 16 liða úrslitunum. Bayern tryggir sér sæti í 16 liða úrslitum með því að ná í stig á móti Villarreal en Real Madrid, AC Milan og Barcelona eru öll komin áfram.
Manchester United hefur unnið fimm síðustu leiki sína í öllum keppnum án þess að fá á sig mark eða alla leiki síðan liðið steinlá á heimavelli á móti City. Liðið er á toppnum í C-riðli en það er mikil spenna í riðlinum og sigurvegari kvöldsins fer langt með að tryggja sér sæti í 16 liða úrslitunum. Tapi United í kvöld bíður liðsins úrslitaleikur á útivelli á móti Basel í síðustu umferð. Wayne Rooney tók ekki þátt í æfingu United í gær.
„Wayne Rooney fékk nokkur högg í leiknum á laugardaginn og æfði ekki í dag en hann ætti að vera í lagi á morgun,“ sagði Sir Alex Ferguson. „Þetta er stór leikur og alvöru Evrópuleikur þegar við lítum á sögu þessara liða. Bæði lið þurfa að vinna þannig að þetta ætti að vera opinn leikur,“ sagði Ferguson.
Fótbolti