Skoðun

Er húsfriður ein mannarættur?

Margrét Steinarsdóttir skrifar
Spurningin útleggst á íslensku sem „Er heimilisfriður mannréttindi?“. Kvinnuhúsið í Færeyjum, sem er athvarf fyrir konur og börn sem búa við ofbeldi á heimilum, spurði þessarar spurningar fyrir nokkrum árum í auglýsingaherferð gegn kynbundnu ofbeldi. Spurningunni má hiklaust svara játandi. Þótt skammt sé liðið síðan litið var á ofbeldi í nánum samböndum, oftast karla gegn konum sínum og jafnvel börnum, sem einkamál er nú almennt litið svo á að ríki beri samfélagslega ábyrgð gagnvart þeim glæp sem ofbeldi á heimilum er.

Í ljósi þess að ríki hafa tekið á sig alþjóðlegar skuldbindingar til að tryggja að allir borgarar fái notið mannréttinda ber þeim að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Allir geta verið sammála um það að ef konur búa við stöðuga ógn og ótta við ofbeldi af hálfu maka sinna fá þær ekki notið sinna mannréttinda, hverju nafni sem þau nefnast. Það á þó ekki síst við rétt til friðhelgi heimilislífs og til þess að þurfa ekki að sæta pyntingum.

Margir hafa orðið til þess að líkja ofbeldi á heimili við pyntingar og vísa í því sambandi til alþjóðlegra skilgreininga á pyntingum og ómannlegri og lítilsvirðandi meðferð. Það að ofbeldið fer fram á heimili, gegn öðrum heimilismönnum, dregur enda hvorki úr alvarleika þess eða áhrifum, né leggur það ríkjum öðruvísi skyldur á herðar en hvað varðar annars konar ofbeldi og vernd mannréttinda.

Á Íslandi hafa stjórnvöld leitast við að mæta skyldum sínum, m.a. með gerð aðgerðaáætlunar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. Enn er þó langt í land í baráttunni gegn slíku ofbeldi og árangur næst ekki nema allir leggist á eitt, jafnt stjórnvöld sem við öll sem byggjum þetta samfélag.




Skoðun

Sjá meira


×