Innlent

Lögregla rannsakar SMS-skeyti

Bloggarinn Teitur Atlason hefur kært athafnamanninn Gunnlaug M. Sigmundsson til lögreglu fyrir SMS-sendingar þar sem Gunnlaugur villti á sér heimildir. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Gunnlaugs í Fréttablaðinu í dag. Lögregla rannsakar málið, samkvæmt heimildum blaðsins.

Gunnlaugur og kona hans höfðu stefnt Teiti fyrir meiðyrði vegna bloggfærslu sem hann birti í febrúar og fjallaði um viðskipti Gunnlaugs með fyrirtækið Kögun.

Teitur hefur síðan reglulega bloggað um gang málaferlanna. Segir Gunnlaugur þetta hafa lagst þungt á sig og hafi hann þá gripið til þess ráðs sem hann iðrist nú, að senda Teiti nafnlaus SMS-skeyti. „Ég mun ekki hafa efni þeirra eftir hér, enda vanhugsuð af minni hálfu og aldrei ætlað að koma fyrir sjónu annarra en viðtakandans,“ segir Gunnlaugur. Hann sendi Teiti afsökunarbréf í gær.

„Efni þessara SMS-a er merki um sjúkleika,“ segir Teitur í samtali við Fréttablaðið en vill ekki greina frekar frá innihaldinu.

Lögmaður Teits bauð Gunnlaugi að fallið yrði frá kærunni gegn því að meiðyrðamálið yrði dregið til baka. Á það féllst hann ekki.

Teitur segist íhuga næstu skref, enda óttist hann að verði hann dæmdur til að greiða málskostnað Gunnlaugs muni það sliga hann fjárhagslega.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×