Erlent

Segja meira en 250 börn hafa verið drepin

Rannsóknarnefndin kynnir niðurstöður Yakin Erturk, Paolo Pinheiro og Karen Abu Zayd skýra frá morðum, nauðgunum og pyntingum.nordicphotos/AFP
Rannsóknarnefndin kynnir niðurstöður Yakin Erturk, Paolo Pinheiro og Karen Abu Zayd skýra frá morðum, nauðgunum og pyntingum.nordicphotos/AFP
Sýrlenskir hermenn hafa drepið hundruð barna og framið ýmsa aðra glæpi gegn mannkyni frá því að stjórnvöld hófu harkalegar aðgerðir gegn mótmælendum snemma á árinu.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem hefur rætt við hundruð vitna og fórnarlamba frá Sýrlandi.

„Meðal þessara glæpaverka eru morð, pyntingar, nauðganir og annars konar kynferðislegt ofbeldi,“ segir Paolo Pinheiro, formaður nefndarinnar. „Við erum með mjög traust gögn í höndunum.“

Í skýrslunni kemur fram að meira en 250 börn hafi verið drepin, þar á meðal tveggja ára stúlka sem var skotin til bana til þess eins að koma í veg fyrir að hún tæki þátt í mótmælum þegar hún yrði eldri.

„Pyntingum var beitt jafnt á börn sem fullorðna,“ segir í skýrslunni. Einnig kemur þar fram að stjórnarherinn hafi skotið af handahófi á óvopnaða mótmælendur. Þá hafi hermenn fengið beinar skipanir um að skjóta mótmælendur til bana í þeim tilgangi að stöðva mótmæli.

Vaxandi alþjóðlegur þrýstingur hefur verið síðustu daga á Bashar al-Assad Sýrlandsforseta að fara frá völdum, meðal annars frá Arababandalaginu og Vesturlöndum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×