Erlent

Ótti við sektir hvetur kjósendur

Sýnir persónuskilríki Egypsk kona bíður á kjörstað eftir því að röðin komi að henni.Fréttablaðið/AP
Sýnir persónuskilríki Egypsk kona bíður á kjörstað eftir því að röðin komi að henni.Fréttablaðið/AP
Ótti almennings í Egyptalandi við sektir, sem herforingjastjórnin hefur hótað að leggja á hvern þann sem ekki tekur þátt í þingkosningunum, kann að eiga sinn þátt í því hve góð kosningaþátttakan hefur verið þessa tvo fyrstu daga.

Fólk hefur flykkst á kjörstaðina og aðstoðað aldraða eða sjúka ættingja, sem eiga erfitt um fótaferð, við að komast á staðinn.

Þessi mikla kosningaþátttaka gengur þvert á afstöðu mótmælenda, sem treysta ekki

herforingjastjórninni til að halda frjálsar kosningar.

Að mestu leyti virðast kosningarnar hafa farið vel fram. Víða hafa þó stjórnmálaflokkar sent liðsmenn sína á kjörstaði, í orði kveðnu til þess að aðstoða kjósendur við að komast á réttan stað, en í reynd ekki síður til að dreifa kosningaáróðri og tala fyrir málstað síns flokks.

Iðnastir við þetta hafa verið flokkar íslamista, sem fyrir fram er spáð flestum atkvæðum. Frjálslyndari flokkar og veraldlega sinnaðir hafa margir gengið sundraðir og veikburða til kosninganna, ekki síst vegna innbyrðis deilna um það hvort rétt sé að taka þátt í kosningunum af heilum hug eða beina kröftunum frekar að því að krefjast afsagnar herforingjastjórnarinnar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×