Lífið

Látin leika vondar konur af því ég er svo góð manneskja

Katla Margrét Þorgeirsdóttir verður vond í ár en hún talar fyrir Hel í teiknimyndinni Þór og leikur vondu nornina í Galdrakarlinum í Oz.
Fréttablaðið/GVA
Katla Margrét Þorgeirsdóttir verður vond í ár en hún talar fyrir Hel í teiknimyndinni Þór og leikur vondu nornina í Galdrakarlinum í Oz. Fréttablaðið/GVA
„Ég er nú vön þessu, er yfirleitt fengin til að leika ráðríku, leiðinlegu og freku eiginkonuna,“ segir Katla Margrét Þorgeirsdóttir leikkona.

Búið er að skipa í helstu raddhlutverk teiknimyndarinnar Þórs sem frumsýnd verður seinna á þessu ári. Eins og Fréttablaðið hefur þegar greint frá mun Atli Rafn Sigurðarson tala fyrir þrumuguðinn en Laddi fyrir hamarinn hans, Mjölni. Katla Margrét verður hins vegar helsti óvinur Þórs, sjálf Hel sem reynir að gera Þór lífið leitt.

Árið hjá Kötlu virðist ætla að verða tileinkað vondum konum því hún leikur einnig illa innrættu nornina í uppfærslu Borgarleikhússins á Galdrakarlinum í Oz sem frumsýnd verður um miðjan september. „Þetta helgast af því að ég er svo góð. Ekki leikkona, heldur manneskja. Leikstjórar virðast álíta að þetta sé mikil áskorun fyrir mig að leika svona vondar konur,“ segir Katla Margrét og hlær. Hún segist ekki hafa sett sig í neinar stellingar í prufunum heldur hafi hún reynt að elta einhvern útlending sem hafði þegar talað inn á hlutverkið. „En ég var látin prófa nokkrar rullur.“

Það verður valinn maður í hverju rúmi í öðrum hlutverkum. Egill Ólafsson talar fyrir Óðin sem er æðstur allra ása og Örn Árnason mun tala fyrir hinn góðglaða Heimdall. Esther Talía Casey verður síðan í hlutverki Freyju, Þröstur Leó Gunnarsson verður stórvinur Þórs og Ágústa Eva Erlendsdóttir talar fyrir Eddu, aðra vinkonu Þórs.

Teiknimyndin Hetjur Valhallar: Þór er dýrasta kvikmynd sem Íslendingar hafa ráðist í að gera en hún er jafnframt fyrsta íslenska teiknimyndin í fullri lengd. Leikstjóri myndarinnar er Óskar Jónasson, handritshöfundur er Friðrik Erlingsson, útlitshönnuður er Gunnar Karlsson en það er teiknimyndafyrirtækið Caoz sem sér um framleiðslu hennar. freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×