Innlent

Reiddist eftir flöskutalningu

Litið alvarlegum augum Maðurinn var í annarlegu ástandi.Fréttablaðið/pjetur
Litið alvarlegum augum Maðurinn var í annarlegu ástandi.Fréttablaðið/pjetur
Lögreglan handtók síðdegis í gær karlmann á fimmtugsaldri sem ógnað hafði lögreglumönnum og öðru fólki með hnífi.

Málið hófst í endurvinnslustöð Sorpu á Dalvegi. Þangað kom maðurinn með poka af flöskum til endurvinnslu og sagði starfsmönnum hversu margar flöskur væru í pokanum. Starfsmennirnir vildu ganga úr skugga um að maðurinn segði satt og rétt frá, töldu upp úr pokanum og kom þá í ljós að maðurinn hafði ofmetið magnið og átti heimtingu á lægri greiðslu en hann bjóst við.

Þessu reiddist maðurinn mjög, dró upp hníf og ógnaði starfsmönnunum, sem flúðu út um hinn enda flöskugámsins. Því næst stökk maðurinn upp í bíl sem eldri maður ók á brott. Kona sem stödd var í Sorpu sá hvað gerst hafði og ákvað að elta bílinn. Hún ræddi í símann við lögreglu á meðan. Eftirförin leiddi hana að tölvuversluninni Start í Bæjarlind. Þar fór maðurinn út úr bílnum og inn í verslunina.

Þrír lögreglubílar komu fljótlega á vettvang. Maðurinn steig út úr versluninni með hnífinn á lofti og ógnaði lögreglumönnunum, sem yfirbuguðu hann og færðu í fangageymslur.

Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir málið litið alvarlegum augum. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×