Innlent

Spaðarnir þeyttust af vindmyllu í Belgsholti

Vindmyllan í Belgsholti Haraldur Magnússon í Belgsholti kveðst lengi hafa haft áhuga á að beisla vindorkuna og loks hafa keypt þessa vindmyllu frá Svíþjóð og sett hana upp í sumar. Myndin er frá því að verið var að reisa mylluna.Mynd/Hannevind
Vindmyllan í Belgsholti Haraldur Magnússon í Belgsholti kveðst lengi hafa haft áhuga á að beisla vindorkuna og loks hafa keypt þessa vindmyllu frá Svíþjóð og sett hana upp í sumar. Myndin er frá því að verið var að reisa mylluna.Mynd/Hannevind
„Þetta er mikið tjón,“ segir Haraldur Magnússon, bóndi í Belgsholti í Leirársveit, þar sem spaðarnir af 24 metra hárri vindmyllu losnuðu af og féllu til jarðar á þriðjudagsmorgun.

„Það er ekki vitað nákvæmlega hver frumorsökin er og hvað gerðist. Trúlega hefur skemmst spaði og við það komið titringur á mylluna. Hún sneri sér ekki alveg rétt undan vindinum. Það hefur verið einhver feill í gangi,“ segir Haraldur.

Að sögn Haraldar slóst einn spaðanna í mastrið og skemmdi það áður en mótorhausinn losnaði frá mastrinu og vindmyllan féll til jarðar.

Haraldur segir enn allt á huldu hvernig fer með ábyrgðargreiðslur og tryggingar vegna tjónsins og hversu mikið það sé. „Það er ekki gott að segja en það hleypur á einhverjum milljónum,“ áætlar hann.

Vindmyllan í Belgsholti er af gerðinni Hannewind og er framleidd í Svíþjóð. „Það var áhugi fyrir því hjá mér að virkja vindinn og maður hjá Orkustofnun benti mér á þessa tegund,“ segir Haraldur.

Frá því vindmyllan var sett upp í Belgsholti að viðstöddu fjölmenni í byrjun júlí í sumar hefur hún framleitt rafmagn fyrir utan stutt tímabil þegar upp hafa komið smábilanir að sögn Haraldar. Hann segir mylluna framleiða upp undir 26 kílóvött af rafmagni þegar best láti. Við þær aðstæður geti hann selt um 10 kílóvött frá sér inn á almenna netið. Afganginn nýti hann á búi sínu.

Haraldur segir að fram undan sé að endurhanna vindmylluna og athuga hvort breyta þurfi útfærslu hennar. Hann hafi þegar verið búinn að taka ákvörðun um að lækka hið 24 metra háa mastur niður í 15 til 18 metra. „Ég sé ekki að það sé þörf á að hafa mastrið svona hátt,“ segir hann.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×