Innlent

Óttast mikla afturför bráðaþjónustu

Reykjavík Stjórn Landssambands heilbrigðisstofnana segir „allt tal“ um nýjan flugvöll nær Reykjavík en Keflavíkurflugvöllur er vera „marklaust“.
Reykjavík Stjórn Landssambands heilbrigðisstofnana segir „allt tal“ um nýjan flugvöll nær Reykjavík en Keflavíkurflugvöllur er vera „marklaust“.
Stjórn Landssambands heilbrigðisstofnana telur nálægð Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann vera mikilvæga vegna sjúkraflugs og bráðaþjónustu við landsbyggðina.

„Gæta verður þess þegar nýr Landspítali er byggður að þessi nánu tengsl verði ekki rofin. Hverfi Reykjavíkurflugvöllur veldur það mikilli afturför í bráðaþjónustu við þá landsmenn sem þurfa að komast til Landspítalans með sjúkraflugi,“ segir í ályktun stjórnarinnar.

Í greinargerð segir stjórnin að árlega séu farin 350 til 400 sjúkraflug til og frá Reykjavík auk ferða þúsunda sjúklinga með áætlunarflugi. Sjúkraflutningar með þyrlum Landhelgisgæslunnar bætist við. „Í sumum tilfellum ræður flutningstíminn á bráðasjúkrahús sköpum í því hvort tekst að bjarga lífi fólks eða ekki,“ segir stjórnin.

Minnt er á yfirlýsta stefnu forsvarsmanna höfuðborgarinnar um að Reykjavíkurflugvöllur „verði lagður niður“. Þá muni innanlandsflug flytjast til Keflavíkur. „Þetta lengir sjúkraflugið og við bætist erfiður akstur til Landspítalans þegar hver mínúta getur verið dýrmæt. Allt tal um byggingu nýs innanlandsflugvallar nær Reykjavík er óraunsætt og marklaust,“ segir stjórnin.

„Það gengur ekki að á sama tíma og byggður er fullkominn nútíma spítali fyrir alla landsmenn verði brugðið fæti fyrir sjúkraflugið með því að leggja flugvöll þess niður og færa þá bráðaþjónustu aftur um áratugi.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×