Innlent

Flestir ætla að eyða svipað miklu í jólagjafir og í fyrra

Jólagjafir Margir eru byrjaðir að huga að kaupum á jólagjöfum, en fáir ætla að eyða meiru en í fyrra í gjafirnar. Fréttablaðið/Stefán
Jólagjafir Margir eru byrjaðir að huga að kaupum á jólagjöfum, en fáir ætla að eyða meiru en í fyrra í gjafirnar. Fréttablaðið/Stefán
Landsmenn ætla ýmist að eyða svipuðum upphæðum og í fyrra til jólagjafakaupa, eða eyða lægri upphæðum en fyrir síðustu jól, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Alls sögðust 58,7 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni ætla að eyða svipuðum upphæðum og í fyrra í jólagjafirnar. Um 33,5 prósent ætla að eyða minni peningum en á síðasta ári. Aðeins 7,8 prósent segjast reikna með að eyða hærri fjárhæðum í jólagjafakaupin.

Karlar virðast örlítið líklegri en konur til að ætla að auka við útgjöldin eða halda þeim óbreyttum. Um 31,7 prósent karla segjast ætla að eyða minna fé, 60,1 prósent svipuðu og í fyrra, og 8,2 prósent hærri fjárhæðum. Um 35,4 prósent kvenna ætla að draga úr útgjöldum, 57,3 prósent halda þeim óbreyttum en 7,4 prósent eyða meiru.

Þeir sem eldri eru virðast aðhaldssamari í jólagjafakaupunum en yngra fólk. Um 10,6 prósent fólks á aldrinum 18 til 49 ára ætla að eyða meiru í jólagjafirnar í ár, en 4,1 prósent fólks 50 ára og eldri.

Hringt var í 800 manns dagana 7. og 8. desember. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Ætlar þú að eyða minni eða meiri peningum í jólagjafir í ár samanborið við síðustu jól? Alls tóku 97,3 prósent afstöðu.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×