Erlent

Konur láti í sér heyra fyrir frelsi

verðlaunahafarnir þrír Konurnar þrjár sem tóku við verðlaunum sínum í Ósló á laugardag. fréttablaðið/ap
verðlaunahafarnir þrír Konurnar þrjár sem tóku við verðlaunum sínum í Ósló á laugardag. fréttablaðið/ap
Ellen Johnson Sirleaf, Leymah Gbowee og Tawakkul Karman fengu friðarverðlaun Nóbels afhent í Ósló á laugardag. Konurnar þrjár hafa barist gegn misrétti, einræðisherrum og kynferðislegu ofbeldi í Líberíu og Jemen. Í ræðum sínum hvöttu þær kúgaðar konur heimsins til þess að rísa upp gegn yfirráðum karla.

„Systur, dætur, vinkonur – finnið raddir ykkar. Finnið röddina, látið í ykkur heyra, látið rödd ykkar vera rödd frelsis,“ sagði Ellen Johnson Sirleaf, forseti Líberíu. Hún er fyrsti kvenforseti landsins sem kosinn er lýðræðislegri kosningu. Hún sagðist taka við viðurkenningunni fyrir hönd allra kvenna sem barist hefðu fyrir friði.

Leymah Gbowee, friðarfrömuður frá Líberíu, barðist einnig fyrir friði í borgarastyrjöld í landinu. Hún hefur barist fyrir réttindum kvenna og gegn nauðgunum. Hún sagði friðarverðlaunin viðurkenningu á baráttu fyrir kvenréttindum alls staðar þar sem konur eru kúgaðar. „Það má ekki hvílast fyrr en heimurinn verður heill og stöðugur, þar sem allir karlar og konur eru jafningjar og frjáls.“

Tawakkul Karman er meðal ötulustu mótmælenda í Jemen. Hún er bæði fyrsta íslamska konan til að taka við friðarverðlaununum og yngsti verðlaunahafinn. Hún sagðist taka við verðlaununum fyrir hönd ungs fólks sem berðist fyrir friði.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×