Innlent

Segja „óraunhæfa“ tillögu vonbrigði

Tómas H. heiðar
Tómas H. heiðar
„Tillagan var algjörlega óraunhæf, fól í sér skref aftur á bak frá undanförnum fundum og olli íslenskum stjórnvöldum því miklum vonbrigðum,“ segir Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslendinga í viðræðum um makrílveiðar, um tillögu ESB og Noregs varðandi veiðarnar.

Fulltrúar Íslands funduðu með fulltrúum ESB, Noregs og Færeyja í Clonakilty á Írlandi 6.-9. desember. Þar lögðu ESB og Noregur fram tillögu um skiptingu aflaheimilda milli strandríkjanna fjögurra.

„Í ljósi þess að ekki virtist mögulegt að ná samkomulagi um framtíðarstjórnun makrílveiðanna lagði Ísland til bráðabirgðalausn í því skyni að tryggja verndun stofnsins. Fólst hún í því að aðilar myndu virða ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um leyfilegan heildarafla ársins 2012, 639.000 tonn, og halda núverandi hlutdeild sinni í veiðunum,“ segir Tómas sem kveður hinar þjóðirnar ekki hafa fallist á þetta.

Þetta segir Tómas þýða að hlutdeild Íslands í makrílveiðunum á næsta ári verði óbreytt, um 16 prósent. Íslensk stjórnvöld leggi áfram ríka áherslu á að ná samkomulagi um stjórnun makrílveiðanna til að tryggja sjálfbærar veiðar og koma í veg fyrir frekari ofveiði úr stofninum. „Náist samkomulag aðila á næstunni verður framangreind ákvörðun að sjálfsögðu tekin til endurskoðunar.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×