Innlent

Sandur úr Landeyjahöfn rýkur út

vinsæll sandur Ingimar í Vöruvali hefur nostrað við sandinn í vikunni til að geta boðið frambærilega vöru.
Fréttablaðið/óskar p. Friðriksson
vinsæll sandur Ingimar í Vöruvali hefur nostrað við sandinn í vikunni til að geta boðið frambærilega vöru. Fréttablaðið/óskar p. Friðriksson
„Ágóðinn hefði nú kannski verið meiri ef ég hefði ekki þurft að sigla til Þorlákshafnar og keyra austur í Landeyjahöfn,“ segir Ingimar Heiðar Georgsson, kaupmaður í Vöruvali í Vestmannaeyjum, sem selur nú pokaðan sand úr Landeyjahöfn.

„Hugmyndin kviknaði í kjölfar sífelldrar umræðu hér í bænum um Landeyjahöfn. Þar hafa auðvitað verið vandræði með sandinn og þess vegna fannst mér þetta upplagt. Hér hefur verið frost og mikil hálka og ekki til hálkusalt þannig að þetta gæti orðið svakalegt sprotafyrirtæki,“ segir Ingimar.

„Svo átti ég erindi upp á land í síðustu viku, renndi austur eftir og setti nokkur hundruð kíló í fólksbílinn minn. Í vikunni hef ég þurrkað sandinn svo þetta sé nú frambærileg vara en ekki mígandi blautt og leiðinlegt.“

Ingimar er búinn að pakka í rúmlega hundrað eins til eins og hálfs kílóa poka og selur þá á 500 krónur kílóið. Pokarnir hafa rokið út og Ingimar á enn nóg af sandi eftir sem hann getur útbúið til sölu.

„Þetta er nú gert í gamni en öllu gamni fylgir einhver alvara,“ segir Ingimar, sem hyggst láta ágóðann renna til Siglingamálastofnunar. „Þeir gætu þá kannski notað þær krónur til að gera endurbætur á höfninni.“ - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×